Tími til að tengja
Eðli málsins samkvæmt byrja nemendur á verknámsbrautum í grunnatriðunum og síðan er byggt smám saman ofan á grunninn. Ef grunnurinn er ekki góður er erfiðara að byggja ofan á hann. Það er gömul saga og ný. Þetta er einfaldur sannleikur um húsbyggingar en gildir einnig um menntun.
Grunndeild rafiðna í VMA hefur verið afar vel sótt undanfarin ár og svo er einnig nú. Enda er það svo að atvinnumöguleikar útskrifaðra rafvirkja og rafeindavirkja eru mjög góðir. Nemendur eru í grunndeildinni í tvo vetur – fjórar annir – en síðan geta þeir valið um annað hvort rafvirkjun eða rafeindavirkjun.
Einn af grunnáföngunum á fyrstu önn í grunndeild rafiðna heitir Verktækni. Þar fá nemendur m.a. þjálfun í notkun ýmissa verkfæra, mismundi kapla og leiðsla. Farið er í grunninn í að tengja rafmagn og það var einmitt það sem nemendur voru að þjálfa sig í þegar litið var inn í tíma hjá Magna Magnússyni kennara. Nemendur hans voru niðursokknir í að tengja og ganga frá vírum. Eitt af mörgum mikilvægum grunnatriðum í þessum fræðum.