Um 950 nemendur í dagskóla á vorönn
Í dag hefst kennsla samkvæmt stundaskrá í VMA. Nemendur sem hafa ekki verið áður í VMA eða ekki verið í skólanum síðastliðin tvö ár eru boðaðir á fund í M-01 kl. 10 í dag með námsráðgjöfum.
Um 950 nemendur stunda nám í dagskóla á vorönn, sem eru eilítið færri en á haustönn 2019 en í samanburði við vorönn 2019 eru fleiri nemendur á vorönn 2020.
Nám á vorönn verður með nokkuð hefðbundnu sniði í skólanum en þó er rétt að nefna að á önninni hefja nýir hópar nám í pípulögnum og múrsmíði og þriðji bekkur í matreiðslu verður einnig í boði. Þetta er í annað skipti sem boðið verður upp á þriðja og síðasta áfanga náms í matreiðslu í VMA, sem lýkur síðan með sveinsprófi.
Í dag, 7. janúar, rennur út frestur til að sækja um fjarnám í VMA á vorönn en kennsla hefst nk. mánudag, 13. janúar. Aðsókn hefur verið mikil í fjarnám í meistaraskólanum og er það nú þegar fullbókað á vorönn. Hins vegar er hægt að sækja um aðra áfanga. Hér er yfirlit yfir þá áfanga sem eru í boði í fjarnámi á vorönn og hér er slóð á umsókn um fjarnám.