Við þurfum öll að gera okkar besta
Ágætu nemendur VMA.
Enn stöndum við á tímamótum á þessari önn. Í þriðja skiptið á þessu skólaári þurfum við að gera breytingar á skipulagi náms og kennslu í VMA. Við þessar aðstæður birtist fjölbreytileiki skólans okkur enn frekar og það er ekkert einfalt að láta hlutina ganga upp. Sjónarmið eru mörg, þarfir eru mismunandi en allir hafa lagst á eitt að láta skólastarfið ganga upp. Það er svolítið táknrænt að dagurinn í dag, 5. október, er alþjóðlegur dagur kennara og vil ég nota tækifærið og óska kennurum til hamingju með daginn. Hér í VMA erum við einstaklega heppin með kennarana okkar. Af fagmennsku og virðingu leggja þeir sig fram við að gera námið að gæðanámi og hér viljum við að nemendum og starfsfólki líði vel. Það er samvinnuverkefni okkar allra, bæði starfsmanna og nemenda.
Ég vil líka þakka nemendum fyrir að bregðast vel við þeim breytingum sem við höfum þurft að gera og fyrir dugnaðinn í þessum aðstæðum sem við erum í. Við höldum áfram, með seiglu (þeir sem skilja ekki orðið geta séð útskýringu hér) og húmor að vopni.
Gangi ykkur vel í náminu, verið áfram dugleg og gerið ykkar besta.
Sigríður Huld, skólameistari VMA
Hér eru svo nokkur atriði sem við viljum koma á framfræri við nemendur.
-
Upplýsingar um skipulag náms eftir brautum eru í tölvupósti sem var sendur fyrr í dag ásamt því að þær upplýsingar eru á heimasíðu skólans.
- Flestir áfangar í iðn,- list- og starfsnámi eru kenndir samkvæmt stundatöflu í staðnámi. Flestir bóklegir áfangar eru kenndir í fjarnámi og eiga nemendur að fá upplýsingar frá kennurum um skipulag hvers áfanga. Kennarar skipuleggja fjarkennslu áfanga út frá stundatöflu.
-
Námsmatsdagur sem skipulagður er miðvikudaginn 7. október mun halda sér og kennsla mun ekki fara fram þann dag. Kennarar geta hins vegar boðað nemendur til sín þann dag og ber nemendum að fara eftir þeim fyrirmælum. Það er tilvalið að nemendur nýti þennan dag til að setja sig vel inn í skipulag námsins eins og það er núna.
-
Miðannarmat verður birt nemendum í síðasta lagi þriðjudaginn 13. október.
-
Grímuskylda er hjá nemendum í kennslustundum ef meterinn er rofinn. Allir nemendur fá grímu þegar þeir koma inn í skólann við innganga að austan, norðan og vestan.
-
Nemendur bera andlitsgrímu fari þeir um ganga, á bókasafn, á salerni eða á þeim stöðum þar sem aðrir nemendahópar eru líka.
-
Nemendur og starfsfólk gengur inn um þá innganga eftir því í hvaða álmur þeir eru að fara og samkvæmt því plani sem sett var upp í upphafi annar. Sjá upplýsingar á heimasíðu.
-
Mötuneytið verður lokað.
-
Sótthreinsun á milli kennslustunda er samkvæmt fyrra skipulagi. Áhersla er á sótthreinsun eftir hvern hóp. Sjá nánar á heimasíðu skólans.
-
Persónulegar sóttvarnir skipta mestu máli nú sem fyrr. Reglulegur handþvottur, spritta hendur ef ekki er hægt að þvo sér um hendur, passa að hafa ekki minna en einn metra á milli einstaklinga og nota andlitsgrímur ef rjúfa þarf eins metra regluna.
-
Val fyrir næstu önn stendur yfir og ef nemendur þurfa ráðgjöf er hægt að koma í viðtal eða hafa samband við náms- og starfsráðgjafa eða sviðsstjóra. Umsjónarkennarar munu einnig svara fyrirspurnum. Opið er fyrir valið í INNU til 19. október.
-
Nemendur sem ekki hafa aðstöðu til að stunda námið heima eru hvattir til að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa til að fá ráðgjöf og/eða geta nýtt sér aðstöðu á bókasafni.
-
Hægt er fá lánaðar fartölvur á bókasafninu fyrir þá nemendur sem hafa ekki aðgang að tölvu.
-
Bókasafnið er einungis opið fyrir nemendur til að vinna sem einstaklingar.
-
Hópamyndun innan skólans er stranglega bönnuð.
-
Skólinn er opinn nemendum eins og sóttvarnareglur leyfa en öll óþarfa umgengni um skólann er óheimil.
-
Þetta skipulag gildir frá og með þriðjudeginum 6. október. Um leið og aðstæður leyfa og hægt verður að auka staðkennslu verður skipulagið endurskoðað.
-
Vetrarfrí verður samkvæmt skóladagatali.
-
Verið óhrædd við að hafa samband ef það er eitthvað, t.d. við sviðsstjóra, námsráðgjafa eða umsjónarkennara.
Reglugerð um skólastarf má finna á vef stjórnarráðsins.