VMA er góður vinnustaður
Verkmenntaskólinn á Akureyri er fjölmennur vinnustaður – launaðir starfsmenn eru um 150 talsins og nemendur í dagskóla á bilinu 1100-1200, auk 470-500 fjarnema. Í svo stóru samfélagi eru að vonum margir þræðir sem halda þarf í til þess að gangverkið virki eins og til er ætlast. Björk Guðmundsdóttir, skrifstofustjóri VMA, er í hópi þeirra starfsmanna sem eru að mestu á bakvið tjöldin, ef svo má segja, hún er ekki í framlínunni á degi hverjum en er engu að síður einn af mikilvægum hlekkjum skólakeðjunnar.
Björk er viðskiptafræðingur að mennt og starfaði í tvö ár í Reykjavík að námi loknu áður en hún fluttist
norður til Akureyrar árið 1989. Eiginmaður hennar er Dan Jens Brynjarsson, fjármálastjóri Akureyrarbæjar og eiga þau þrjá syni;
Ágúst Frey f. 1988, Hákon Val f. 1993 og Arnar Birki f. 1997.
Björk hóf störf hjá VMA árið 1989, fyrst sem kennari við viðskipta- og hagfræðibraut skólans í hálfu starfi. Frá 1991
til 1994 starfaði hún sem fjármálastjóri VMA og kenndi áfram áfanga á viðskipta- og hagfræðibraut.
„Á þessum tíma var viðskipta- og hagfræðibrautin mun stærri en hún er í dag. Ég kenndi bókfærslu og
þjóðhagfræði og hafði mjög gaman af,“ segir Björk.
Árið 1994 skipti Björk um starfsvettvang og gerðist framkvæmdastjóri Héraðsnefndar Eyjafjarðar í hálfu starfi. Því starfi
gegndi hún til haustsins 2001, en þá flutti fjölskyldan til Edinborgar í Skotlandi og bjó þar í eitt ár. Eftir heimkomuna frá
Edinborg starfaði Björk hjá Íslandsbanka þar til hún hóf störf við Verkmenntaskólann haustið 2005. Björk segir að
starfið hjá Héraðsnefnd Eyjafjarðar hafi verið fjölbreytt og hún hafi fengið þar gott tækifæri til þess að kynnast
fjölmörgu góðu fólki sem starfaði að sveitarstjórnarmálum. Hins vegar hafi starfið verið einskonar einyrkjastarf og með tímanum
hafi hún fundið þörf fyrir dagleg samskipti á vinnustað og því ákveðið að breyta til eftir heimkomuna frá Edinborg.
Haustið 2005 færði Björk sig síðan aftur upp á Eyrarlandsholtið á gamla vinnustaðinn og tók þá við starfi
skrifstofustjóra, sem hún gegnir enn.
„Ég hafði reynslu af því að VMA væri góður vinnustaður og því vissi ég að hverju ég gekk. Verkmenntaskólinn er fjölmennur og líflegur vinnustaður og hér starfar afbragðs gott fólk. Þetta er fjölbreytt starf og ótrúlega margt kemur inn á mitt borð. Eins og starfsheitið ber með sér stýri ég skrifstofunni, sem þýðir að ég vinn náið með öðrum starfsmönnum hér á skrifstofunni. Ég hef með höndum fjárhagsáætlanagerð og fylgist með fjárhagsstöðu skólans. Sem stendur hef ég innheimtu á minni könnu, en hún mun færast til nýráðins bókhalds- og innheimtufulltrúa. Þá fara í gegnum mig ýmis innkaup fyrir skólann og síðast en ekki síst geri ég ráðningarsamninga og legg allar launaupplýsingar fyrir starfsmenn skólans í hendur Fjársýslu ríkisins. Það er vissulega töluvert umfangsmikið því starfsmenn á launaskrá eru um 150. Hér ríkir mikill stöðugleiki í starfsmannahaldi og hefur gert alveg frá stofnun skólans. Sú staðreynd er staðfesting á því hversu góður vinnustaður Verkmenntaskólinn á Akureyri er,“ segir Björk Guðmundsdóttir.