VMA fær jafnlaunavottun
Undir lok síðasta árs fékk VMA staðfestingu á jafnlaunavottun en að henni hefur verið unnið í tæplega tvö ár. Jafnlaunavottun var lögfest í júní 2017 með breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Meginmarkmið laganna er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Jafnlaunavottun byggist á staðlinum ÍST 85 og kemur fram á á vef Stjórnarráðs Íslands segir að með innleiðingu hans geti fyrirtæki og stofnanir „komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun.“
Hrafnhildur Haraldsdóttir, rekstrar- og fjármálastjóri VMA, segir að undirbúningur að jafnlaunavottun VMA hafi hafist á vormánuðum 2018 og á haustönn 2018 hafi vinnan farið í fullan gang. Fyrirtækið Vottun vann síðan úttektina, sem lauk síðan með staðfestingu á jafnlaunavottun síðla síðasta árs, sem fyrr segir. Lokaúttektin var rafræn vegna Covid 19 farsóttarinnar.
Hrafnhildur segir þessa vinnu hafa verið ítarlega og nákvæma en hún hafi gengið vel og ánægjulegt sé að málið sé í höfn og skólinn hafi fengið staðfesta jafnlaunavottun.
Hér eru Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari og Benedikt Bárðason aðstoðarskólameistari með skjal til staðfestingar á jafnlaunavottuninni.