Vökul augu með tölvukerfinu
Eins og vera ber á svo stórum vinnustað sem VMA er þarf að hafa vökul augu með tölvukerfinu. Ef eitthvað út af ber með kerfið þarf að bregðast skjótt við, enda þurfa margir kennarar að hafa góðan aðgang að netinu í sinni kennslu í gegnum innra net skólans og síðan er öflugt þráðlaust kerfi í skólanum sem gerir bæði nemendum og starfsmönnum kleift að tengjast internetinu.
VMA er með samning við Stefnu hugbúnaðarhús á Akureyri um tölvuþjónustu og fyrir hönd Stefnu er Birgir Már Harðarson kennurum og nemendum til aðstoðar með ýmis tölvumál. Birgir er með fasta viðveru í skólanum hluta úr viku en starfar þess utan hjá Stefnu á Akureyri. Hann er sjávarútvegsfræðingur að mennt frá Háskólanum á Akureyri árið 2006.
„Ég sé um almenna kerfisþjónustu hérna í skólanum og aðstoða kennara og nemendur með ýmis mál sem tengjast tölvunotkun. Ég fylgist síðan vel með netmálum hér,“ segir Birgir Már. Hann hóf að starfa í VMA fyrir hönd Stefnu um áramótin 2012/2013. „Auðvitað er þetta nokkuð viðamikið kerfi, enda er á annað þúsund manns í dagskóla og starfsmennirnir á annað hundrað. Þetta er stórt samfélag og tölvunotkunin því mikil,“ segir Birgir Már. Velflestir nemendur tengjast þráðlausa netinu annað hvort í gegnum fartölvur sínar eða síma og það segir sína sögu að allt að 600 notendur tengjast netinu á venjulegum skóladegi og í einn dag í janúar sl. fór notkun upp í um 750 notendur. Birgir Már segir að fylgst sé með því hvort nemendur hlaði of miklu gagnamagni niður í gegnum net skólans, en það er takmörkunum háð.
Vefsíða VMA styðst við vefumsjónarkerfið Moya frá Stefnu. Birgir Már hefur yfirumsjón með vefsíðunni og aðstoðar kennara, ef þarf, við að setja þar efni inn. Hann segir mikilvægt að hafa síðuna lifandi og reglulega uppfærða, eins og þessi reglulegu fréttaskrif hér inn á forsíðuna beri vitni um.