Geðræktarátak á baráttudegi gegn einelti
Áttundi nóvember er helgaður baráttunni gegn einelti og af því tilefni hófst í dag sá hluti verkefnisins „Heilsueflandi framhaldsskóli“, sem VMA er hluti af, er lýtur að geðrækt. Verkefninu var ýtt úr vör með formlegum hætti í Gryfjunni í morgun.
Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins hefur verið sett af stað átakið „Í þínum sporum – stöndum saman gegn einelti“. Á vefsíðu átaksins er fólk hvatt til þess að skrifa nöfn sín og leggja þannig þessu mikilvæga átaki lið.
Verkefnið „Heilsueflandi framhaldsskóli“ byggist á þeirri stefnu að nálgast forvarnir út frá víðtæku og jákvæðu sjónarhorni með það að markmiði að stuðla að vellíðan og auknum árangri allra í skólasamfélaginu, nemenda og starfsfólks. Höfuðáhersla verkefnisins er á fjögur viðfangsefni, þ.e. næringu, hreyfingu, geðrækt og lífsstíl. Geðræktarátakið hófst með formlegum hætti í Gryfjunni í VMA í morgun og voru viðstaddir allir þeir nemendur og kennarar sem voru í skólanum í morgun. Í upphafi sagði Egill Friðjónsson, nemendi í skólanum, nokkur orð og síðan var stutt tónlistaratriði nemenda í áfanganum TON173 og félaga í Yggdrasil – leikfélagi skólans. Hjalti Jónsson sálfræðingur, sem starfar í VMA, sagði síðan nokkur orð. Hann minnti á mikilvægi þess að rækta geð hvers og eins rétt eins og fólk færi í „ræktina“ og ræktaði þar líkamann. Hjalti lagði áherslu á að í því fælist engin skömm ef fólki liði illa. Ef það gerðist væri hins vegar afar mikilvægt að ræða það við hvern þann sem viðkomandi treysti vel, hvort sem það væri fjölskyldan kennarar eða samnemendur.
Geðrækt er þriðji hluti verkefnisins „Heilsueflandi framhaldsskóli“ og þar er lögð áhersla á að bæta líðan nemenda og starfsmanna. Til grundvallar í þeirri vinnu er að skapa jákvæðan skólabrag sem einkennist af jafnrétti, virðingu og umhyggju, hafa skýra stefnu í eineltismálum, fræða og þjálfa nemendur og starfsfólk í því hvernig hægt er að hlúa að eigin geðheilsu og annarra, auka samvinnu milli foreldra, skóla og nærsamfélags um að standa vörð um vellíðan og velferð nemenda og hafa greiðan aðgang að ráðgjöf og geðheilbrigðisþjónustu fyrir þá sem þess þurfa. Liður í því að fylgja átakinu eftir er að fylgja sérstökum gátlista.