Stuðningur vegna mismunandi aðstæðna nemenda
Þjónusta vegna áfalla og veikinda
Á hverju skólaári á einhver ótiltekinn fjöldi nemenda við að stríða tímabundna eða langvarandi erfiðleika eða sorg vegna veikinda, slysa, dauðsfalla, skilnaðarmála eða einhverra annarra áfalla. Í sumum tilvikum þurfa nemendur að minnka námsálag tímabundið eða viðvarandi með því að fækka einingum í samráði við viðkomandi kennslustjóra. Skólinn reynir að styðja þessa nemendur eftir mætti m.a, með því að bjóða upp á viðtöl hjá sálfræðingi eða presti auk viðtala við starfsmenn skólans s.s. hjúkrunarfræðing, námsráðgjafa, kennslustjóra og skólameistara. Skólinn hefur einnig samning við lækni á Heilsugæslustöðinni fyrir þá nemendur sem eiga lögheimili utan þjónustusvæðis stöðvarinnar. Þá liggur fyrir innan skólans sérstök áfallaáætlun sem fjallar um hvernig skólinn bregst við dauðsfalli nemanda eða starfsmanns skólans. Foreldrar og aðstandendur nemenda eru hvattir til að láta einhvern af ofangreindum starfsmönnum skólans vita ef nemendur eiga um sárt að binda.
Þjónusta við nemendur með mjög góða námsstöðu Áfangakerfi VMA gerir góðum námsmönnum kleift að ljúka námi í framhaldskóla á skemmri tíma en námskrá gerir almennt ráð fyrir. Á það sérstaklega við um bóknámsbrautir. Nemendur þurfa þá að taka á einhverjum eða öllum sínum önnum fleiri námseiningar en viðkomandi brautarskipulag gerir ráð fyrir. Til þess að gera nemendum þetta kleyft mun skólinn bjóða bjóða nemendum uppá ýmsar leiðir. Nemendur munu geta lokið einhverjum áföngum með skertri tímasókn, áhersla verður lögð á að auka framboð dreifkennslu í dagskóla þannig að nemendur geti lokið fleiri áföngum, nemendum verður boðið að ljúka einhverjum áföngum í fjarkennslu og svo mætti áfram telja. Hraðferðarhópur verður settur í gang og þeir nemendur sem í honum eru fá sérstaka kynningu á möguleikum sínum hjá námsráðgjafa og kennslustjórum. Rétt er að taka fram að hraðferð felur í sér mjög mikla vinnu og álag og er varla fær nema afburðanemendum.
Þjónusta við nemendur með slaka námsstöðu
Árangur nemenda í grunnskóla ræður allnokkru um það hvað þeim stendur til boða í upphafi náms síns í skólanum. Þannig fá nemendur kennslu í íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku í samræmi við árangur sinn í grunnskóla. Nemandi sem er með slakan árangur í þremur eða öllum kjarnagreinunum fær sérstakt námstilboð á Almennri braut. Auk þess að gefa nemandanum færi á að styrkja stöðu sína í bóklegu námi veitir þetta námstilboð kynningu á öllu verklegu námi við skólann. Sjá nánar námslýsingu Almennrar brautar. Eldri nemendum sem koma með slaka stöðu í einni eða fleiri kjarnagreinum er ráðlagt að taka upprifjunaráfanga í viðkomandi grein/greinum.
Áfangakerfið gerir nemendum kleift að taka færri einingar á önn en almenn uppsetning brauta sýnir. Nemandi sem einhverra hluta vegna á í erfiðleikum í námi ætti að ræða þann möguleika við sinn kennslustjóra eða námsráðgjafa.
VMA býður upp á skimunarpróf varðandi lestrar-og/eða ritunarörðugleika ef grunur er um slíkt og nemandi hefur ekki fengið greiningu fyrr á sínum skólaferli. Í byrjunaráföngum í íslensku eru lögð fyrir verkefni til að kanna stöðu nemenda í lestri og ritun en nemandi getur einnig óskað eftir slíkri greiningu hjá námsráðgjafa án þess að hafa fengið ábendingu frá kennurum. Nemandi sem greinist með lestrar- og/eða ritunarerfiðleika fær rétt á lengri próftíma og einnig getur hann fengið tilvísun á Blindrabókasafn ef niðurstöður gefa tilefni til þess. Hið sama gildir um nemanda sem kemur með greiningu frá öðrum aðilum en slíkum gögnum þarf hann að koma til námsráðgjafa við upphaf skólagöngu og fá upplýsingar um þær tilhliðranir sem skólinn veitir.
Skilgreind fötlun veitir nemanda rétt á umsókn til Menntamálaráðuneytis um aukatíma í tilteknum áföngum. Skólinn þarf að sækja um slíka tíma út á nafn viðkomandi nemanda með löngum fyrirvara. Námsráðgjafi tekur við slíkum beiðnum. Um aðra aukatíma á vegum skólans er ekki að ræða en námsráðgjafar hafa reynt að aðstoða nemendur sem vilja leita sér aukahjálpar á eigin kostnað við að finna aukakennara.
Sérstakt námstilboð er við VMA fyrir þroskaskerta nemendur og fjölfatlaða, sjá námslýsingu Starfsbrautar.
Þjónusta við námslega sterka nemendur
Verkmenntaskólinn býður nemendum sem koma með mjög góðar einkunnir úr 10. bekk upp á sérþjónustu sem byggir á þeim hugmyndum að nemendur geti hraðað námi sínu til stúdentsprófs og/eða dýpkað það
Hugmyndafræðin sem liggur að baki er að nemendur geti hraðað námi sínu og dýpkað það í leiðinni. Að góðir nemendur finni að árangur þeirra sé metinn af skólanum og eftir honum sé tekið sem og að búa nemendur mjög vel undir nám á háskólastigi.
Inntökuskilyrði í hópinn eru mjög góðar og jafnar einkunnir á samræmdu prófum og í skólaeinkunn grunnskóla. Þeir nemendur sem taka þátt eru hluti af hópnum svo lengi sem þeir sýna áframhaldandi góðan árangur í skólanum.
Þeir nemendur sem taka þátt fá góða stundatöflu með mörgum námseiningum óski þeir eftir því. Þeir fá sérstaka aðstoð við að dýpka nám sitt og/eða fara hraðar í gegnum stúdentsprófið. Þeim er boðið upp á sveigjanleika í prófum og að taka áfanga í fjarnámi án endurgjalds óski þeir eftir því. Umsjónarmaður heldur utan um hópinn og hittir hvern og einn einstakling og fylgist með námsframvindu hans og ánægju í námi. Einnig hittir umsjónarmaður hópinn reglulega og býr til námsáætlun fyrir hvern og einn nemanda. Umsjónarmaður er í reglulegu sambandi við foreldra/forráðamenn nemendanna.