Skíðakonan situr og saumar
Það kom mörgum á óvart þegar Katrín Kristjánsdóttir, skíðakona frá Akureyri, tilkynnti í júní 2012 að hún væri hætt að keppa á skíðum, aðeins 21 árs að aldri. Þá um vorið hafði Katrín orðið Íslandsmeistari í stórsvigi á Skíðamóti Íslands og hún átti að baki keppni í bæði Evrópu- og heimsbikarmótum. Nú er Katrín sest á skólabekk, hefur frá því í haust tekið áfanga á listnámsbraut VMA og íhugar nú næstu skref í námi.
Að loknum grunnskóla á Akureyri tók Katrín eina önn á íþróttabraut VMA. En rétt eins og hjá systurinni, Dagnýju Lindu, höfðu skíðin mikið aðdráttarafl og úr varð að hún fór í skíðamenntaskóla í Noregi auk þess sem hún æfði og keppti á skíðum. Hún var í þrjú ár í skólanum í Noregi og eitt ár eftir það æfði hún og keppti með landsliði Íslands á skíðum. Lífið var því æfingar, svefn, keppni og ferðalög. Eins og gangur lífsins er gekk upp og ofan hjá Katrínu á skíðunum og hún segir að eftir á að hyggja hafi hún sett of mikla pressu á sig sjálfa og því hafi vonbrigðin verið meiri þegar hlutirnir gengu ekki eins vel og hún hafði vænst þegar í keppnina var komið. Uppsöfnuð andleg þreyta og álag hafi því gert það verkum að hún hætti að keppa á skíðum eftir veturinn 2011-2012. Þegar horft sé til baka segist Katrín ekki getað neitað því að hún hugsi stundum um það að hún hefði ef til vill átt að gefa þessu meiri tíma. Í dag, þegar hún sé orðin hálfu öðru ári eldri, sé hún mun þroskaðri og væri tilbúnari til þess að takast á við það andlega álag sem fylgi því að æfa og keppa af þeim krafti sem þurfi. Hins vegar hafi hún aldrei horft í baksýnisspegilinn vegna þeirrar ákvörðunar sem hún tók á sínum tíma að leggja keppnisskíðunum, enda sé hún mjög sátt við það sem hún fáist við í dag.
„En ég get vissulega viðurkennt að ég sakna skíðanna pínulítið en eftir sem áður er ég dugleg að fara á skíði. Ég sakna félagsskaparins, æfinganna og ferðalaganna. En það sem skiptir máli er að mér líður betur núna en þegar ég var sem mest að keppa. Ég var á þeim tíma orðin mjög andlega þreytt og þurfti hvíld. Ég ætlaði mér einfaldlega um of. En ég nýt þess mjög að fara á skíði með brettastrákunum og leika mér. Þessi baktería hverfur ekki svo auðveldlega,“ segir Katrín og brosir.
Fyrir ári síðan, haustið 2012, segist Katrín hafa unnið „eins og brjálæðingur“ í frystihúsi ÚA á Akureyri til þess að safna peningum fyrir tveggja mánaða Ameríkuferð. Í hana fór hún í febrúar á þessu ári með Aroni, kærasta sínum, sem er mikill brettaáhugamaður. Í einn mánuð voru þau á skíðum þar vestra og segir Katrín að það hafi veitt sér mikla ánægju að skíða án þess að hafa hugann við keppni.
Þegar tíðindamaður heimasíðunnar hitti Katrínu sat hún við saumavélina í fatahönnun í VMA, en hún hefur frá því í haust tekið áfanga á listnámsbraut. „Auk fatahönnunar hef ég m.a. tekið áfanga í sjónlistum og myndlistar- og menningarsögu. Það hefur margt komið mér skemmtilega á óvart í náminu, til dæmis vissi ég ekki að ég gæti teiknað! Það hefur lengi blundað í mér að prófa eitthvað þessu líkt og ég hugsaði með mér: á ég ekki bara að láta á þetta reyna? Kannski má segja að ég hafi einhver gen í þessa veru því Ingólfur afi minn var klæðskeri og mamma er mjög duglega að sauma. Þetta hefur bara verið mjög skemmtilegt,“ segir Katrín og íhugar hvort hún eigi að fara í fullt nám á textílbraut VMA og/eða skella sér í ljósmyndun, sem hafi líkað heillað hana lengi.
Framundan eru sem kunnugt er Vetrarólympíuleikarnir í Sochi í Rússlandi. Katrín segist ekkert hugsa um það að ef til vill væri hún á leið á leikana ef hún hefði ekki ákveðið fyrir hálfu öðru ári að hætta að keppa á skíðum. „Ég átti alveg eins von á því að það ætti eftir að verða mér erfitt að æfingafélagar mínir væru á leið á Ólympíuleikana. En það er ekki. Ég hef bara mjög gaman af því sem ég er að takast á við núna og nýt þess. Mér finnst bara ágætt að þurfa ekki að hugsa um stífan undirbúning fyrir Ólympíuleikana en ég kem sannarlega til með að njóta þess að fylgjast með keppninni. Ég fer í ræktina reglulega, æfi svokallað „Training for Warriors“ í KA-heimilinu, sem mér finnst algjör snilld, og það dugar mér auk þess að fara á skíði mér til skemmtunar. Fyrst og fremst samgleðst ég þeim félögum mínum sem koma til með að keppa fyrir Íslands hönd á Vetrarólympíuleikunum,“ segir Katrín Kristjánsdóttir.