Þórduna tilnefnd til viðurkenningar frá Akureyrarbæ
Samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar hefur tilnefnt Þórdunu – nemendafélag VMA til viðurkenningar ráðsins vegna söfnunar fyrir neyðaraðstoð UNICEF – Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna - sl. haust fyrir stríðshrjáð börn í Sýrlandi. Nokkur önnur verkefni eru tilnefnd og verður tilkynnt hvaða verkefni fær viðurrkenninguna í hófi í Rósenborg nk. fimmtudag kl. 17.
Þáverandi stjórrnarmenn í Þórdunu fengu hugmyndina að því að allir framhaldsskólar landsins myndu leggja neyðaraðstoð UNICEF lið sl. haust með því að safna fé. Útkoman varð mun betri en nokkur þorði að vona og afraksturinn var 1,2 milljónir króna, sem var síðan afhentur UNICEF. Hluti nemendafélaga skólanna lagði málefninu lið með fé úr eigin sjóðum en önnur stóðu fyrir sérstökum söfnunum innan sinna skóla – með áheitum, kökusölum, söfnunarbaukum o.fl.
Jónas Kári Eiríksson, fyrrverandi formaður Þórdunu, er að vonum ánægður með þessa tilnefningu og segist vera sérstaklega ánægður með að tekið sé eftir því sem vel sé gert í framhaldsskólum landsins.
UNICEF hefur í tæpa sjö áratugi verið leiðandi í hjálparstarfi fyrir börn í heiminum og haft að leiðarljósi að öll börn í heiminum eigi rétt á heilsugæslu, menntun, jafnrétti og vernd.
oskarthor@vma.is