Æfa fyrir jólatónleikana að kvöldi jólapeysudagsins 3. desember
Tíminn líður, fyrsti desember nk. sunnudag og aðventa jóla gengur í garð. Kennsludögunum á önninni fækkar óðum og síðan hefst prófatíðin. Áður en kennslu lýkur og prófin byrja verður hinn risastóri jólapeysudagur nk. þriðjudag, 3. desember, í VMA og þá eru starfsmenn og nemendur hvattir til að mæta í skólann í jólapeysum.
Á jólapeysudaginn verður boðið upp á mandarínur, piparkökur og konfekt og uppákomur verða í tilefni dagsins í löngu frímínútunum í Gryfjunni. En þetta verður þó bara upptaktur að stóra dagskrárlið jólapeysudagsins sem verður kl. 20:00 í Gryfjunni. Þá verður blásið til jólatónleika sem verður í höndum nemenda skólans - hljómsveitar og söngvara.
Valur Freyr Sveinsson stýrir tónleikunum. Hann segir að í ljósi þess hversu vel hafi gengið með tónleikana í Gryfjunni á vorönn 2019 hafi verið ákveðið að halda jólatónleika á þessari önn og hafi hljómsveitin verið að stilla saman strengi að undanförnum, fyrst hafi hún æft í Rósenborg og síðan fært sig í Gryfjuna. Í gærkvöld var æft þar og þá voru þessar myndir teknar.
Hljómsveitina skipa:
Píanó/hljómborð: Styrmir Þeyr Traustason og Árdís Eva Ármannsdóttir.
Trommur: Lára Guðnadóttir.
Bassi: Ágúst Máni Jóhannsson.
Rafmagnsgítar: Alexander Örn Hlynsson.
Kassagítar: Jónas Þórir Þrastarson.
Söngurinn verður í höndum Maríu Bjarkar, Emlu Bjarkar, Særúnar Elmu og Svanbjargar Önnu. Þrettán jólalög úr öllum áttum verða á dagskránni og er rétt að taka fram að óvæntur leynigestur mun taka þátt í dagskránni. Engin fleiri orð um það, fólk verður bara að mæta og njóta stundarinnar!