Af díóðum, viðnámi og transistorum
Viðnám, þéttir, skautaður þéttir, díóða, ljósdíóða, stilliviðnám, transistor. Allt eru þetta grunnhugtök í rafmagnsfræðinni sem nemendur í grunndeild rafiðna þurfa að hafa á hreinu.
Þegar litið var inn í kennslustund hjá Magna Magnússyni í grunndeild rafiðna voru nemendur á annrri önn að taka fyrstu skrefin í því að setja saman lóðstöð. Lóðningar er það allra fyrsta sem þarf að gera og rifjuðu nemendur upp grunnatriði lóðningar sem þeir lærðu á fyrstu önninni sinni í grunndeildinni fyrir áramót. Allt er þetta gert eftir kúnstarinnar reglum, í réttri röð, og þarf að gæta fyllstu nákvæmni. Allt verður þetta að virka rétt og eins og lagt er upp með.
Á haustönn voru nemendur í áfanga á málmiðnaðarbraut þar sem þeir smíðuðu kassa utan um lóðstöðina en núna er sem sagt komið að næsta skrefi, sem er að setja saman lóðstöðina sjálfa og koma henni fyrir í kassanum.
Þessi áfangi í grunndeild rafiðna á annarri önn heitir Tækjasmíði 1 og eins og segir í lýsingu áfangans fá nemendur þjálfun í smíði rafeindarása með a.m.k. tíu íhlutum. Nemendur þjálfast í því að lesa og vinna eftir teikningum, læra um virkni og hlutverk íhluta, smíða rásir og nota mælitæki til þess að kanna virkni rásanna og átta sig á því hvaða afleiðingar það hefur ef einstaka íhlutir bila. Einnig fá nemendur þjálfun í því að framkvæma einfalda bilanaleit með notkun mælitækja.
Grunndeild rafiðna er í fjórar annir og fyrir verðandi rafvirkja bætast við tvær annir ef nemendur fara á samning hjá meistara en þrjár ef valin er svokölluð skólaleið. Þeir nemendur sem velja rafeindavirkjun taka sömuleiðis fjórar annir í grunndeild og síðan taka við þrjár annir í rafeindavirkjun.