Fara í efni

Af hryllingshúsi, Djúpinu og Lísu í Undralandi

Embla Björk Hróadóttir.
Embla Björk Hróadóttir.

Það er aldrei lognmollan í leiklistarstarfinu hjá Emblu Björk Hróadóttur, formanni Leikfélags VMA, en þessa dagana er í óvenju mörg horn að líta hjá henni. Nú er verið að undirbúa að setja upp hryllingshús – eins konar völdunarhús - í VMA nk. sunnudag, í þemavikunni í næstu viku verður frumsýnt nýtt stuttverk sem Embla hefur skrifað og leikstýrir og í þriðja lagi er hún þessa dagana ásamt fleirum að velja leikara í uppsetningu Leikfélags VMA á Lísu í Undralandi

Hryllingshús í VMA
Á hrekkjavökudaginn (e. Halloween), sunnudaginn 31. október nk. kl. 17-21, verður öllum boðið að koma í skólann og máta sig inn í hryllingshús sem verður sett upp í M-01 – gengið inn á D-gang (að vestan). Aðgangur er ókeypis. Embla Björk segir að hugmyndinni um hryllingshús hafi verið kastað fram til þess að kanna áhuga nemenda á að taka þátt í þessu verkefni og viðbrögðin hafi farið fram úr björtustu vonum. Eyrún Arna Ingólfsdóttir, markaðsfulltrúi og meðstjórnandi í Leikfélagi VMA er helsti hugmyndasmiður þessa verkefnis og hefur yfirumsjón með því. Á þriðja tug nemenda eru nú að undirbúa uppsetningu hryllingshússins í tilefni af hrekkjavökunni og segir Embla að nemendahópurinn láti hugmyndaaflið ráða för og útfæri sínar hugmyndir í M-01. Sjón verður sögu ríkari!

Djúpið
Í næstu viku verður þemavika í VMA sem ber yfirskriftina Jafnrétti og kynheilbrigði. Nánar um þemavikuna síðar hér á heimasíðunni.
Einn af viðburðum þemavikunnar verður sýning á nýju stuttverki, Djúpið, sem Embla Björk Hróadóttir hefur skrifað og hún er jafnframt leikstjóri uppfærslunnar. Embla segist hafa skrifað verkið fyrir tveimur árum og umfjöllunarefnið sé andlegt ofbeldissamband, sem hún hafi sjálf gengið í gegnum fyrir nokkrum árum. „Ég er ekki feimin að tala um þetta, leikritið er út frá persónulegri reynslu minni og ég lít á það sem forvarnaverkefni. Með þessu stuttverki vil ég leggja mitt af mörkum og vekja athygli á skuggahliðum andlegra ofbeldissambanda,“ segir Embla Björk.
Leikarar í sýningunni eru þrír; Eyrún Arna Ingólfsdóttir, Örn Smári Jónsson og Emilía Marín Sigurðardóttir.
Sem fyrr segir verður Djúpið sýnt í þemavikunni í næstu viku, annars vegar í lífsleiknitímum nýnema og hins vegar verða sýningar á verkinu fyrir alla í Gryfjunni í hádeginu 4. nóvember og daginn eftir verður það sýnt fyrir kennara skólans.

Mikill áhugi á Lísu í Undralandi
Síðastliðinn mánudag voru prufur fyrir uppsetningu Leikfélags VMA á Lísu í Undralandi en áætlað er að frumsýna verkið í febrúar 2022. Þrjátíu og sjö mættu í prufur í hlutverk í sýningunni, sá elsti þrítugur og sá yngsti sextán ára. Embla Björk segist vera í skýjunum með þennan mikla áhuga nemenda á að taka þátt í leikritinu og ljóst sé að miðað við hæfileikana sem nemendur búi greinilega yfir verði erfitt að komast að niðurstöðu í að velja leikara í hlutverkin. Næst í ferlinu sé að þrengja hringinn – út frá fyrstu prufu – og þeir sem komi áfram til greina í hlutverk fari í gegnum aðra prufu áður en endanlega verður valið í hlutverkin, sem mun liggja fyrir fyrripart nóvember.