Allt orðið klárt með árshátíðina nk. þriðjudagskvöld!
26.02.2017
Nú er allt komið á hreint fyrir árshátíðina sem verður nk. þriðjudagskvöld, 28. febrúar, í íþróttahúsi Síðuskóla. Árshátíðin hefst kl. 19:00 en húsið verður opnað kl. 18:30. Sú óhjákvæmilega ákvörðun að fresta árshátíðinni sl. föstudag vegna veðurs og ófærðar gerði það að verkum að á ýmsan hátt þurfti að raða púslunum upp á nýtt. En nú er sem sagt búið að ganga frá lausum endum.
Eins og áður verður á matseðli kvöldsins í aðalrétt heilsteikt lambalæri með rjómasósu, fersku salati, kartöflugratíni, gænum baunum og rauðkáli. Í eftirrétt verður súkkulaðikaka með rjómatoppi.
Veislustjórar verða Auddi og Steindi Jr. Eyþór Ingi Gunnlaugsson sér um að koma fólki í réttan gír og stjórnar fjöldasöng á meðan á borðhaldi stendur. Aðrir skemmtikraftar verða KÁ-AKÁ, GKR og Bent og Blezroca og að lokum setur Páll Óskar, hinn eini og sanni, punktinn yfir i-ið og kemur fólki í rétta dansgírinn!
Nú liggur fyrir sú ákvörðun skólayfirvalda að kennslufall verður á miðvikudaginn til kl. 11.25 en þá hefst kennsla samkvæmt stundatöflu.
Hvetjum nemendur til að fjölmenna á árshátíðina og eiga gott og skemmtilegt kvöld saman.