Anna María Jónsdóttir aðstoðarskólameistari VMA í vetur
Anna María Jónsdóttir er aðstoðarskólameistari VMA á þessu skólaári í námsleyfi Benedikts Barðasonar. Hún hefur starfað að ýmsum verkefnum í skólanum síðustu þrjú ár, m.a. annast verkefnisstjórn við nýja skólanámsskrá, verið gæðastjóri og sl. vetur var hún einnig annar tveggja áfangastjóra skólans. Anna María segir starf aðstoðarskólameistara leggjast vel í sig.
„Já, mér líst mjög vel á þetta nýja starf. Vissulega þurfti ég að hugsa mig um þegar mér var boðið að taka það að mér en eftir að hafa starfað sem áfangastjóri um tíma þekkti ég nokkuð vel til hluta þeirra verkefna sem eru á borði aðstoðarskólameistara. Þetta verður skemmtilegur tími, er ég alveg viss um, en jafnframt örugglega krefjandi“ segir Anna María.
Anna María var á sínum tíma á náttúrufræðibraut VMA, brautskráðist árið 2002. Hún fór í sjávarútvegsfræði í Háskólanum á Akureyri og lauk henni árið 2005. Í framhaldinu fór hún í kennsluréttindanám til framhaldsskólakennslu og lauk síðan meistaraprófi í námsskrár- og kennslufræðum frá HA árið 2012.
„Það má kannski segja að ég sé eins langt frá sjávarútvegsfræðinni sem ég lærði á sínum tíma og hugsast getur en mér líður bara ljómandi vel með það. Hér er gott að starfa, með frábæru fólki sem skilar afar góðri vinnu,“ segir Anna María.
Í mörg horn er að líta fyrir starfsfólk VMA við upphaf annarinnar. Anna María segir að við stundatöflugerð og aðra undirbúningsvinnu fyrir annarbyrjun séu starfsdagarnir langir og alltaf sé það ákveðinn léttir að sjá hlutina púslast saman og hina daglegu rútínu í kennslu hefjast.
Með ráðningu Önnu Maríu gegna konur í fyrsta skipti í sögu VMA stöðum skólameistara og aðstoðarskólameistara. „Já, þetta er mjög skemmtilegt. Og það er líka skemmtilegt að við Sigríður Huld erum báðar útskrifaðar úr þessum skóla.“
Auk starfs aðstoðarskólameistara mun Anna María áfram halda utan um námsskrárvinnuna á verknámsbrautum skólans sem vonir standa til að unnt verði að ljúka í vetur. Jóhannes Árnason kennari tekur hins vegar að sér þau verkefni í vetur sem Anna María hafði með höndum er lýtur að áfanga- og gæðastjórnun.