Atriði úr Tröllum á Glerártorgi um helgina
Um helgina mun leikhópurinn úr leikritinu Tröllum, sem Leikfélag VMA frumsýnir í Menningarhúsinu Hofi 16. febrúar nk., sýna sýnishorn úr verkinu í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi.
Uppákomurnar verða á morgun, 7. desember, kl. 15, og á sunnudaginn, 8. desember, á sama tíma. Einnig verður leikhópurinn á Glerártorgi um aðra helgi, laugardaginn 14. desember kl. 15:00 og sunnudaginn 15. desember kl. 16:00. Þá verður sýnt atriði úr sýningunni við brautskráningu VMA í Hofi 21. desember nk.
Þegar litið var inn á æfingu hjá leikhópnum á dögunum var verið að æfa danssporin við lagið September með Earth, Wind and Fire, sem verður í sýningunni við íslenskan texta. Dansþjálfarinn er Þórgunnur Ásta Kristinsdóttir, Haukur Sindri Karlsson gerir tónlistina í sýningunni og leikstjóri er Kolbrún Lilja Guðnadóttir, sem hefur jafnframt skrifað handritið með Jokku G. Birnudóttur.
Hlé hefur nú verið gert á æfingum á Tröllum til 3. janúar 2020 þegar aftur verður hafist handa og þá verður æft linnulaust fram að frumsýningu. Búningarnir eru smám saman að verða til og allt verður þetta komið á sinn stað þegar að frumsýningu kemur 16. febrúar.
Miðasala á Tröll hófst í lok síðustu viku. Full ástæða er til að lauma miðum á Tröll í jólapakkann í ár!