Fara í efni

Ávarp Stefaníu Töru brautskráningarnema

Stefanía Tara Þrastardóttir ávarpar brautskráningarhátíðina í Hofi í dag.
Stefanía Tara Þrastardóttir ávarpar brautskráningarhátíðina í Hofi í dag.

Við brautskráninguna í dag flutti Stefanía Tara Þrastardóttir ávarp útskriftarnema en hún brautskráðist í dag úr námi í hársnyrtiiðn. Ávarp Stefaníu er eftirfarandi:

Kæru samnemendur, ættingjar og vinir, starfsfólk VMA og aðrir gestir.
Gleðilega hátíð!

Stefanía Tara heiti ég og var mér falið að halda hér örstutta ræðu fyrir hönd útskriftarnema haustannar 2024. En fyrir ykkur sem þekkið mig þá vitið þið að þessi ræða verður aldrei stutt. Ég var mjög lengi að ákveða hvort ég ætti að vera rosalega formleg og stikla bara hér á stóru í staðreyndum um VMA og það frábæra starfsfólk sem starfar þar eða leyfa mér að hafa þetta dálítið Stefaníulegt og grínast bara í ykkur í nokkrar mínútur. Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta verður bara beggja blands, formlegheit og Stebbulegheit.

Mér finnst alls ekki úr vegi að óska ykkur gleðilegrar hátíðar í dag vegna þess að við erum hér saman komin í Hofi til að fagna merkum áfanga í lífi okkar allra. Með mér á sviðinu í dag eru um 80 nemendur úr öllum hornum Verkmenntaskólans að útskrifast með ýmsa titla, en ég held ég tali fyrir alla samnemendur mína hér þegar ég segi að við höfum lagt blóð, svita og tár í okkar nám síðustu misseri og uppskerum svo sannarlega eftir því hér í dag.

Mér er oft hugsað til baka, nokkur ár aftur í tímann þegar ég var að feta mín fyrstu spor í framhaldsskóla og voru þau spor auðvitað tekin í Verkmenntaskólanum á Akureyri. Árið er 2011 og ég, 16 ára gömul, tók auðvitað strætó alla daga í skólann úr Þorpinu og var góðar 17 mínútur á leiðinni - með snúruheyrnartólin tengd í Ipodinn. Þessar minningar eru algjörlega rollsinn í mínum huga.

Ég gekk í allskyns hlutverk innan skólans, gegndi hlutverki ritara Þórdunu og svo síðar formanns Þórdunu og má segja að ég hafi ekki verið óáberandi í félagslífinu. Ég sagðist þó á sínum tíma ætla að flytja lögheimili mitt úr VMA og aftur heim eftir minn vetur sem formaður en líkt og glöggir sjá, þá stóð ég ekki við það.

Skemmst er frá því að segja að lítið sem ekkert hefur breyst í Verkmenntaskólanum, ég er jú 10 árum eldri en meðalnemandi í dag, Ómar Kristinsson fór úr rauðhærðu í grárauðhært - sko bæði hár og skegg, Sigríður Huld færði sig um einn rass og fór úr aðstoðarskólameistara í skólameistara. Eins og ég segi, allt eins og það á að vera. Ég tel að þessar litlu breytingar sem hafa orðið í Verkmenntaskólanum á Akureyri síðustu ár séu merki þess hve góður vinnustaður og skóli VMA er og er það auðvitað mikilvægt til þess að nemendur blómstri í námi, líkt og ég og þessi hópur útskriftarnema hefur augljóslega gert í dag.

Þegar ég fékk að vita að mér væri falið að flytja þessu ræðu hér í dag, þá lagðist ég að sjálfsögðu í rannsóknarvinnu, las yfir eldri ræður útskriftarnema og ég fann rauða þráðinn. Hann var sá að allir væru með tárin í augunum að kveðja VMA, það væri ótrúlega gaman að útskrifast en sárt að kveðja. Ég tengi við þetta að mörgu leyti, öðruvísi þegar maður er „gamall“ nemandi en alltaf sárt að kveðja VMA og allt sem þessum frábæra skóla fylgir. Ég mun þó reyndar sakna Ómars minnst.

Við erum hér í dag til að fagna! Fagna velgengni og metnaði, vináttu, gleði og sigrum. Í dag er ég þakklát fyrir að vera hluti af þessum magnaða hópi útskriftarnema en ég er ekki síður þakklát fyrr að vera hluti af litlu hárgreiðslu fjölskyldunni minni þar sem ég hef eignast vini fyrir lífstíð.

Í dag flyt ég þó lögheimili mitt fyrir fullt og allt heim – stend við það í þetta sinn. Ómar, þetta er allt í lagi - þú ert loksins laus við mig.

Til hamingju með daginn kæru útskriftarnemar! Þið eruð sigurvegarar dagsins sem létuð aldrei hugfallast.

Takk fyrir mig.