Dagur íslenskrar tungu
Í dag, 16. nóvember, er Dagur íslenskrar tungu. Hann hefur verið haldinn hátíðlegur frá 1996 á fæðingardegi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar og er markmiðið með honum að minna á mikilvægi þess að hlúa að íslenskri tungu og velta vöngum yfir sögu hennar, nútíð og framtíð. Dagur íslenskrar tungu er einn af fánadögum á Íslandi.
Af hverju skyldi dagurinnn vera tengdur Jónasi Hallgrímssyni? Það fer vel á því vegna þess að Jónas er tvímælalaust í hópi okkar stærstu skálda. Ekki aðeins orti hann mörg ódauðleg kvæði sem hafa lifað með þjóðinni í áranna rás, heldur var hann nýyrðasmiður sem auðgaði tunguna í ríkum mæli. Hér eru upplýsingar um ævi og störf Jónasar.
Hvernig sem á það er litið er ekki sjálfgefið að íslenskan lifi af ólgusjó nútímans þar sem allt er á fleygiferð og netvæðingin gerir það að verkum að enskan, sem hið alþjóðlega tungumál, er allt um kring. Í þessu umhverfi eru ýmis spjót sem beinast að okkar tungumáli, sem vel að merkja er í hópi tungumála í heiminum sem fæstir tala. Sumir óttast að íslenskan hverfi með tíð og tíma en aðrir benda á að hún hafi verið undir áhrifum frá öðrum tungumálum í áratugi og árhundruð – t.d. dönsku og ensku – og hún muni lifa eftir sem áður góðu lífi. Dagur íslenskrar tungu er vel til þess fallinn að velta vöngum yfir þessu. Er einhver ástæða til þess að ætla að íslenskan sé á barmi hengiflugs eða eru þetta innantómt svartagallsraus?
Á Degi íslenskrar tungu er efnt til hátíðarsamkomu þar sem afhent eru Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og sérstakar viðurkenningar fyrir störf í þágu íslensks máls. Í dag verða þessar viðurkenningar afhentar við hátíðlega athöfn í Eldheimum í Vestmannaeyjum.
Eftirtalin hafa hlotið Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar:
1997 - Gísli Jónsson, menntaskólakennari
1998 - Þórarinn Eldjárn, rithöfundur
1999 - Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri
2000 - Magnús Þór Jónsson, Megas, tónlistarmaður og ljóðskáld
2001 - Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld og þýðandi
2002 - Jón Böðvarsson, íslenskufræðingur, kennari, skólameistari og ritstjóri
2003 - Jón S. Guðmundsson, menntaskólakennari
2004 - Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur, rithöfundur og ritstjóri
2005 - Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrv. alþingismaður
2006 - Njörður P. Njarðvík, íslenskufræðingur og háskólaprófessor
2007 - Sigurbjörn Einarsson, fyrrv. biskup og skáld
2008 - Herdís Egilsdóttir, kennari
2009 - Þorsteinn frá Hamri, rithöfundur og skáld
2010 - Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands
2011 - Kristín Marja Baldursdóttir, rithöfundur
2012 - Hannes Pétursson, rithöfundur
2013 - Jórunn Sigurðardóttir, dagskrárgerðarmaður
2014 - Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur
2015 - Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur
2016 - Sigurður Pálsson, skáld
2017 - Vigdís Grímsdóttir, rithöfundur
2018 - Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði
2019 - Jón G. Friðjónsson, prófessor
2020 - Gerður Kristný, skáld
2021 - Arnaldur Indriðason, rithöfundur 2021
Sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu hafa hlotið:
1996 - Orðanefnd byggingarverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands
1997 - Orðanefnd rafmagnsverkfræðingadeildar Verkfræðingafélags Íslands
1997 - Hið íslenska bókmenntafélag
1998 - Blaðamannafélag Íslands
1998 - Félag íslenskra leikskólakennara
1999 - Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum
1999 - Mjólkursamsalan
2000 - Stóra upplestrarkeppnin
2000 - Dr. Richard N. Ringler
2001 - Félag framhaldsskólanema
2001 - Námsflokkar Reykjavíkur
2002 - Íslensk plöntuheiti, rafræn útgáfa
2002 - Með íslenskuna að vopni, hagyrðingakvöld Vopnfirðinga
2003 - Lesbók Morgunblaðisins
2003 - Spaugstofan
2004 - Kvæðamannafélagið Iðunn
2004 - Strandagaldur
2005 - Lestrarmenning í Reykjanesbæ
2005 - Bókaútgáfan Bjartur
2006 - Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands
2006 - Leikhópurinn Hugleikur
2007 - Samtök kvenna af erlendum uppruna
2007 - Fréttastofa Útvarps
2008 - Landnámssetur Íslands í Borgarnesi
2008 - Útvarpsleikhúsið
2009 - Þórbergssetur á Hala í Suðursveit
2009 - Baggalútur
2010 - Möguleikhúsið
2010 - Hljómsveitin Hjálmar
2011 - Hljómsveitin Stuðmenn
2012 - Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði
2013 - Máltæknisetur
2013 - Ljóðaslamm Borgarbókasafns
2014 - Vefnámskeiðið Icelandic Online
2014 - Lestrarhátíð í Bókmenntaborg
2015 - Bubbi Morthens, tónlistarmaður
2016 - Ævar vísindamaður (Ævar Þór Benediktsson)
2017 - Gunnar Helgason, rithöfundur
2018 - Verkefnið Skáld í skólum
2019 - Hljómsveitin Reykjavíkurdætur
2020 - Félag ljóðaunnenda á Austurlandi
2021 - Vera Illugadóttir, dagskrárgerðarkona