Einbeitt í saumaskapnum
VMA er blanda af bóknáms- og verknámsskóla. Námsframboðið er því afar víðtækt og allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Á hverri önn eru í boði valáfangar sem nemendur af ýmsum brautum velja, til þess að prófa eitthvað nýtt og víkka sjóndeildarhringinn. Einn slíkur valáfangi á þessari önn er fatasaumur.
Á textílsviði listnámsbrautar er fatasaumur vitaskuld kenndur og þar er, eðli málsins samkvæmt, farið dýpra í hlutina. En í þessum valáfanga eru grunnatriðin kennd og segir Sólveig Þóra Jónsdóttir textílkennari að sumir nemendur séu að prófa sauma í fyrsta skipti en aðrir hafi haft tækifæri í handavinnu í grunnskóla til þess að sauma.
Þessi valáfangi í saumum – sem heitir einfaldlega Fatasaumur – er í boði á vorönn þegar nægilega margir nemendur velja hann. Og á það skorti ekki nú, þrettán nemendur eru skráðir í áfangann og mega ekki fleiri vera því öll vinnusvæði eru fullnýtt.
Í lýsingu á áfanganum segir: „Nemendur læra að taka líkamsmál og lesa úr máltöflum. Lögð er áhersla á að þekkja helstu sniðhluta og gera einfaldar sniðbreytingar. Kennt er að leggja rétt á efni og reikna út efnisþörf. Nemendur læra á saumavél og möguleika hennar. Saumaðar eru prufur og einfaldar flíkur. Lögð er megináhersla á að fylgja verkinu eftir frá hugmynd að fullunnu verki og temji sér vönduð vinnubrögð. Vinnumappa er útbúin sem skal innihalda prufur og vinnulýsingar fyrir hvert verkefni.“
Þegar litið var inn í kennslustund voru nemendur, sem eru af ýmsum brautum skólans, önnum kafnir við að sauma einfaldan utanávasa. Við sauma þarf þolinmæði og nákvæmni og hún virtist vera til staðar í ríkum mæli og einungis hjalið í saumavélunum rauf þögnina.
Aðstaða til sauma er í húsnæði listnámsbrautar VMA og eru þrjár af saumavélunum splunkunýjar. Í þessu eins og öðru er mikil tækniþróun og fótstigin heyra sögunni til.