Fara í efni

Ekki álitlegt að sitja á skrifstofu og skrifa tölvupósta

Kjartan Halldór Steinunnarson (t.v.) og Hannes Logi Jóhannsson.
Kjartan Halldór Steinunnarson (t.v.) og Hannes Logi Jóhannsson.

Hannes Logi Jóhannsson og Kjartan Halldór Steinunnarson stunda nám á þriðju önn í húsasmíði í VMA og báðir búa þeir á Heimavist MA og VMA – Hannes Logi er frá Árskógsströnd og Kjartan Halldór frá Blönduósi. Þeir eru sammála um að námið uppfylli þeirra væntingar, gaman sé að skapa og samfélagið í byggingadeildinni sé í senn notalegt og heimilislegt.

„Mér finnst þetta fjölbreytt og skemmtilegt nám. Ég ákvað strax í 9. bekk grunnskóla að læra smíðar, kannski hafði það eitthvað að segja að pabbi er smiður og ég hafði prófað að smíða með honum. Og svo nýtist þetta nám manni alltaf mjög vel, hvort sem maður starfar sem smiður eða ekki í framtíðinni. Síðastliðið sumar var ég að vinna hjá HGB – HeiðGuðByggir á Akureyri og fannst það mjög fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Hannes Logi.

„Ég ákvað að fara í grunndeild byggingagreina í VMA og stefndi á að fara í píparann. En ákvað síðan, eftir að hafa kynnst smíðunum betur, að fara frekar í smiðinn. Mér finnst smíðarnar fjölbreyttar og það er gaman að vinna úti og prófa ólíka hluti,“ segir Kjartan Halldór.

Að loknum þessum vetri tekur við eitt ár í starfsnám í smíðunum og síðan koma Hannes og Kjartan aftur í skólann og ljúka síðustu önn námsins. Hannes Logi ætlar raunar að bæta við sig bóklegum greinum og stefnir einnig á stúdentspróf.

Báðir sjá þeir fyrir sér að starfa við smíðar í framhaldi af náminu enda sé alltaf skortur á iðnaðarmönnum. „Það kom ekki til greina af minni hálfu að fara í hreint bóknám enda finnst mér ekki álitlegt að sitja á skrifstofu og skrifa tölvupósta allt mitt líf. Ég fæ útrás í smíðunum,“ segir Hannes.

Þegar litið var inn í byggingadeildina voru Hannes og Kjartan að leggja hönd á plóg við forsmíði frístundahúss númer tvö sem nemendur smíða í vetur. Eins og venja er til byggja nemendur á þriðju og fjórðu önn í húsasmíðinni frístundahús og bygging þess flýgur áfram enda námshóparnir þrír og því gengur hraðar fyrir sig að byggja húsið en t.d. sl. vetur þegar námshóparnir voru tveir.