Naut Erasmus+ styrks til þess að starfa við framreiðslu á hóteli í Sevilla á Spáni
„Ég fékk mjög mikið út úr þessu starfsnámi, fyrir mig var þetta mikil og góð reynsla sem mun nýtast mér afar vel,“ segir Bergur Örn Ægisson, nemandi í VMA sem hefur tekið stefnuna á að læra framreiðslu. Stóran hluta þessa sumars starfaði hann í ýmsum framreiðslustörfum á hóteli í Sevilla á Spáni og naut til þess styrks frá Erasmus+ styrkjaáætlun ESB í námi og þjálfun fyrir starfsnámsnema. Frá vorinu 2023 hefur nemendum og starfsfólki VMA gefist kostur á að sækja um slíka Erasmus+ styrki í því skyni að kynnast og fá þjálfun í sínum starfsgreinum í öðrum Evrópulöndum.
Bergur Örn innritaðist haustið 2022 í byggingadeild VMA en færði sig eftir haustönninna í grunndeild matvæla- og ferðagreina. Þá hafði hann starfað um hríð sem þjónn á veitingastað á Akureyri og sú reynsla kveikti í honum að læra framreiðslu. Til þess að verða fullmenntaður framreiðslumaður þarf fyrst að taka grunndeild matvæla- og ferðagreina og því námi lauk Bergur um áramótin 2023-2024. Sú hugmynd kom síðan upp í samtali Bergs og Valgerðar Húnbogadóttur, sem hélt utan um erlend samskipti VMA á síðasta skólaári, hvort hann gæti hugsað sér að vera í starfsþjálfun um tíma á veitingastað í útlöndum. Hugmyndin fangaði Berg strax og ýmis Evrópulönd komu til greina. Bergi fannst Spánn afar áhugaverður kostur og úr varð að hann fór til Sevilla 21. maí sl. og kom heim aftur í byrjun þessa mánaðar, reynslunni ríkari.
Bergur starfaði á hóteli í Sevilla og var þar starfsmaður á bar, við morgunverðarhlaðborðið og framreiðslu á mat. Hann segist hafa notið góðra og gagnlegra leiðbeininga starfsfólks staðarins og almennt hafi vinnuandinn verið mjög góður. Nokkrir starfsmannanna, en fjarri því allir, töluðu ensku en smá saman komst Bergur betur og betur inn í spænskuna og segist hafa verið farinn að skilja töluvert undir lok dvalartímans.
Meðan á dvölinni í Sevilla stóð bjó Bergur á Euromind-heimavist, sem var í ca. hálftíma fjarlægð með lest frá hótelinu. Hann segist hafa verið fljótur að tileinka sér lestarsamgöngurnar og læra á borgina. Vinnutíminn var virka daga frá kl. 9 til 14 – frí um helgar. Bergur segir að Erasmus+ styrkurinn hafi nýst afar vel til þess að greiða fyrir ferðirnar út og aftur heim og uppihaldið í Sevilla. Fyrir þetta tækifæri segist hann vera afar þakklátur og ánægður að hafa gripið þesa gæs þegar hún gafst.
Bergur er nú aftur kominn á skólabekk í VMA og hyggst nýta veturinn til þess að safna einingum til stúdentsprófs. Meðal annars taki hann spænskuáfanga núna á haustönn, sem ekkert var endilega ofarlega á baugi áður en hann fór til Spánar. En dvölin þar kveikti í Bergi að læra spænskuna betur. Og hann vonast til þess að fá tækifæri til þess að fara aftur til Sevilla og hitta samstarfsfélagana aftur. Raunar hafi honum verið boðin áframhaldandi vinna á hótelinu!
Þrátt fyrir að einbeita sér að stúdentsprófseiningum á þessari önn hefur framreiðslunámið ekki vikið frá Bergi, hann segir stefna á það og horfi til þess að starfa sem framreiðslumaður í framtíðinni.