Fara í efni

Innsetningar í þrívíðri formfræði

Í einu af innsetningarverkunum nýta nemendur einn af mörgum þakgluggum skólans á skemmtilegan hátt.
Í einu af innsetningarverkunum nýta nemendur einn af mörgum þakgluggum skólans á skemmtilegan hátt.

Nemendur í áfanganum Þrívíð formfræði á listnáms- og hönnunarbraut hjá Helgu Björg Jónasardóttur hafa að undanförnu m.a. verið að vinna innsetningarverk sem nú gefur að líta í hinum ýmsu rýmum skólans. Þegar slík verk eru unnin reynir á hugmyndaflugið því þau þarf að laga að þeim rýmum sem verkin eru sett inn í. Og rýmin eru eins ólík og þau eru mörg.

Innsetning er íslenska þýðingin á enska hugtakinu Installation. Á vef Listasafns Reykjavíkur er að finna þessa lýsingu á innsetningu í listum:

Innsetning er heiti á listaverkum sem fylla heil rými, eru „sett inn“ í rýmið. Innsetningar eru stundum hugsaðar sérstaklega fyrir tiltekinn stað, hvort sem er varanlega eða tímabundið. Þær geta verið talsvert flóknar tæknilega eða samsettar úr mörgum þáttum. Þegar innsetning er varðveitt er henni pakkað vandlega saman og síðan þarf að setja hana upp aftur eftir nákvæmum leiðbeiningum listamannsins. Til að upplifa innsetningu gengur áhorfandinn í gegnum rými og tekur það inn frá mismunandi sjónarhornum. Innsetningar eru oft einhvers konar upplifunarrými þar sem skynjun áhorfenda er virkjuð á mismunandi hátt.

Fjögur innsetningarverk sem nemendur hafa unnið á síðustu vikum eru nú í húsakynnum VMA. Í einu þeirra, sem Janey, Díana og Diljá hafa unnið, er hafið viðfangsefnið og er leitast við að draga fram rósemd og hlýju þess. Í öðru verki, sem Neó og Bella unnu, er náttúran í öndvegi og umhverfisvitundin dregin fram. Í þriðja verkinu, sem Kristjana, Júlía og Roxanna unnu, er hið daglega líf í VMA umfjöllunarefnið. Í því fjórða, sem Sara og Bergdís eiga heiðurinn af, er hryllingurinn og hið vakandi auga undirtónninn. Og fimmta verkið er síðan gjörningur Karenar, Fríðu og Elsu þar sem einnig er átt við hryllinginn og drungann í dimmum vistarverum.