137 nemendur brautskráðir frá VMA
Verkmenntaskólanum á Akureyri var slitið við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Hofi í dag. Að þessu sinni brautskráðust 137 nemendur en heildarfjöldi skírteina var 167 sem helgast af því að nokkrir nemendur brautskráðust af fleiri en einni braut – sumir tóku við þremur skírteinum.
Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari greindi frá ýmsu í skólastarfinu á liðnum vetri. Hún sagði skólastarfið hafa almennt gengið vel enda væri mikill mannauður í skólanum í starfsfólki og nemendum.“Við erum nú að ljúka öðru ári á stúdentsprófsbrautum skólans samkvæmt nýrri námsskrá og á skólaárinu hafa kennarar og stjórnendur unnið að nýjum námsbrautarlýsingum í iðnnámi en þeirri vinnu er nú að mestu lokið. Námsskrárbreytingar í iðn- og starfsnámi hafa reynst flóknari vinna en við breytingar á stúdentsprófsbrautunum og allt ferlið tekið lengri tíma. Fleiri hagsmunaaðilar koma þar að og því miður hefur undirbúningur og markmið að breytingum í iðnnámi ekki verið eins skýr og þegar breytingar í námi til stúdentspróf voru kynntar fyrir skólasamfélaginu.
Kennarar og stjórnendur geta verið stoltir af þeirri námsskrárvinnu sem hefur farið fram bæði í iðnnáminu og á stúdentsprófsbrautum skólans - enda horft til okkar vinnu í öðrum skólum. Takmark okkar var alltaf að hafa áhrif í námsskrárvinnunni, ekki bíða bara eftir því hvað hinir gera heldur vera leiðandi og það hefur okkur tekist. Vil ég nota tækifærið og þakka kennurum og stjórnendum fyrir þeirra framlag til að gera nám nemenda enn betra með nýjum áherslum og nálgunum.“
Iðn- og tækninám
Sigríði Huld varð tíðrætt í ræðu sinni um iðn- og tækninám. „Það er talað um það á hátíðis- og tyllidögum að efla þurfi iðn- og tækninám en fáir útskýra frekar hvað það er og hvað þurfi til. Iðn- og tækninám kallar á meiri tækjabúnað en hefðbundið bóknám. Framhaldsskólar landsins hafa þurft að spara í rekstri og tækjakaup engin ár eftir ár. Er svo komið að sumir skólar hafa dregist langt aftur úr í tækjabúnaði sem hefur á endanum áhrif á nám nemenda og áhrif á færni þeirra þegar þeir koma út í atvinnulífið.
Við búum við það í VMA að eiga gott samtal við nærsamfélag okkar og við alltaf lagt okkur fram í að þjóna því samfélagi sem skólinn er í. Samskipti við fyrirtæki og atvinnulífið á svæðinu hefur verið afar færsælt og við finnum vel fyrir þeim velvilja og stuðningi sem okkur er sýndur bæði í orði og á borði. Samstarf skólans við stéttarfélög, fyrirtæki og iðnmeistara hefur hreinlega verið til þess að hægt að er bjóða upp á ákveðnar námsbrautir við skólann og má þar nefna bifvélavirkjun, múriðn og nám í pípulögnum.
En eitt er að bjóða upp á iðn- og starfsnám en annað er að fá ungt fólk til að velja nám í þessum greinum. Kemur þar margt til svo sem fordómar gagnvart iðnnámi og ofuráhersla á stúdentspróf. Oftar en ekki eru það fordómar og þekkingarleysi sem ræður þarna för. Hugmyndum um að vera góður á bókina og fara þá í bóknám og svo að vera handlaginn og fara í iðnnám er enn haldið á lofti. Eins og það sé einhver hindrun í því að eiga gott með að læra á bókina ef hugurinn stefnir í iðnnám. Sá sem er handlaginn getur alveg farið í bóknám ef hugurinn stefnir þangað. Raunveruleikinn er reyndar orðinn sá að iðnnám er orðið mikið tækninám sem krefst leikni og færni í greinum eins og stærðfræði og ensku.
Ýmsir fræðingar hafa haldið því fram að í dag sé helmingur þeirra starfa sem grunnskólabörn dagsins í dag fari í í framtíðinni ekki til og megnið af þessum störfum verði til í tæknigreinum. Skólakerfið hvorki hér á Íslandi né erlendis er að undirbúa þessa þróun og eru það viss vonbrigði í okkar hópi hve lítið t.d. iðn- og starfsnám fær að þróa sig í átt að breyttu samfélagi nú þegar unnið er að breytingum á námsskrám í þessum greinum.
Í vetur stóðu þrettán verknámsskólar á landinu fyrir átaki þar sem áherslan var á kynningu á iðn- og starfsnámi, m.a. var blaðið 2020 gefið út og sent inn á öll heimili barna sem voru í 10. bekk í vetur. Nafn blaðsins 2020 vísar í sameiginlegt markmið skólanna sem er að 20% grunnskólanemenda velji iðn- og starfsnám frá og með árinu 2020. Við í VMA höfum reyndar átt hátt hlutfall nýnema í iðnnámi miðað við marga aðra skóla og er það vel. Á sama tíma og blaðið kom út var kynning fyrir nemendur í 9. og 10. bekk á námi í framhaldsskólum á Íslandi. Kynningin var haldin í Laugardalshöll samhliða Íslandsmeistaramóti í iðngreinum. Nemendur VMA fjölmenntu á mótið og uppskáru fjölda verðlauna, m.a. Íslandsmeistaratitil í sjúkraliðagreinum, kjötiðn, rafeindavirkjun og hönnun vökvakerfa.
Samhliða kynningarátaki um iðn- og starfsnám tók VMA þátt í verkefninu „kvennastarf“ þar sem áherslan var á að fá konur til að velja það sem kallast hefðbundin karlastörf, s.s. í byggingagreinum, rafiðn og málmiðngreinum. Átakið vakti mikla athygli og hefur vonandi hvatt stelpur sem eru að velja sér nám að loknum grunnskóla að velja sér nám í þessum greinum. Það er mikið talað um skort á starfsfólki og fagfólki í hinum ýmsu iðngreinum og nú er lag fyrir bæði skólana og atvinnulífið að gera námið og þessi störf aðlaðandi fyrir konur, taka vel á móti þeim þegar þær mæta í skólann eða á vinnustaðinn og sleppa takinu á karllægum hugmyndum sínum um þessi störf. Fyrst og fremst snýst þetta allt um viðhorf okkar sjálfra hvort sem við erum nemendur, foreldrar, vinnuveitendur eða kennarar. Svo stelpur hér í salnum - verið óhræddar við að velja ykkur nám í þessum greinum - það er ekkert, alls ekkert sem kemur í veg fyrir það að stelpa geti verið rafvirki, vélstjóri eða húsasmiður - ekki frekar en að það eigi eitthvað að hindra stráka í því að velja sér nám og störf í greinum eins og umönnun, kennslu eða snyrtigreinum sem margir flokka sem starfsgreinar fyrir konur.“
Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir
Í vetur hefur VMA tekið þátt í verkefninu „Rjúfum hefðirnar - förum nýjar leiðir“. Verkefnið er unnið undir stjórn Jafnréttisstofu og er unnið í samstarfi við Slippinn, Öldrunarheimili Akureyrar, Oddeyrarskóla og leikskólann Lundasel. Sigríður Huld sagði að í verkefninu væri lögð áhersla á að rjúfa hefðir sem tilheyri karla- og kvennastörfum. „Verkefnið hefur gefið okkur tækifæri til að t.d. kynna námið í háriðn í VMA fyrir strákum á Lundarseli, stelpur í VMA fengu kynningu á störfum í Slippnum og stákar á störfum leikskólakennara. Okkur er öllum hollt að setja upp kynjagleraugun - og við eigum ekkert að vera að taka þau niður þegar við höldum að þau passi ekki.“
Félagslífið
Sigríður Huld sagði kraft hafa verið í félagslífinu á liðnum vetri. „Mikill metnaður hefur verið í starfi nemendafélagsins í vetur og er uppsetning leikfélagsins á Litlu hryllingsbúðinni líklega sá viðburður sem stendur upp úr. Sýningin hlaut mikið lof og nemendur lögðu mikið á sig til að gera sýninguna að því stórvirki sem hún varð. Við sem sáum þessa sýningu erum afar stolt af nemendum okkar og gaman að sjá hvernig nemendur vaxa og njóta sín með þátttöku sinni í uppfærslunni. Og metnaðurinn í leikfélaginu heldur áfram og búið að hvísla að mér að næsta haust muni leikfélagið setja upp söngleik hér í þessum sal í Hofi. Já, þau eru orðin stórtæk í leikfélaginu, fyrir tveimur árum var sýnt í Freyvangi, í vetur í Samkomuhúsinu og næst er það Hof. Þetta kallar maður metnað. Í mars var sett upp frumsamið leikverk eftir Pétur Guðjónsson og Jóhönnu Birnudóttur sem kallast „Mér er fokking drullusama“ og var sýnt í Gryfjunni. Höfundarnir leikstýrðu verkinu en allir aðrir sem komu að sýningunni höfðu áður komið við sögu í leiklistinni í VMA. Þessi stutta sýning sem tók innan við 20 mínútur tók á málefnum sem oftar en ekki eru tabú í samfélaginu s.s. vanrækslu, neyslu, ofbeldi og sjálfsvíg - en líka um mikilvægi trausts og vináttu. Rauði þráðurinn var barátta góðs og ills í okkur sjálfum. Sýningin var mjög áhrifamikil og lét engan ósnortinn og eftir hverja sýningu ræddu leikarar og höfundar við gesti. Leikverkið var m.a. hluti af lífsleiknitímum hjá nýnemum skólans og viðfangsefnið nýtt áfram í umræðum nemenda.
Á vorönn var haldin árshátíð nemenda og að vanda var öllu tjaldað til. Svo miklu að veðurguðirnir gátu ekki setið á sér og buðu upp á svo öflugar vindvélar að ófært varð á milli landshluta og skemmtikraftar komust ekki norður. Það voru því snör handtökin þegar taka þurfti niður svið og skreytingar sem búið var að setja upp í salnum í Síðuskóla - og nokkrum dögum seinna að koma öllu upp aftur - og úr varð frábær árshátíð þar sem nemendur skemmtu sér fram á nótt.
Að hafa öflugt og fjölbreytt félagslíf er ekkert sjálfgefið og æ erfiðara að ná til nemenda þar sem samkeppnin um tíma þeirra er mikill. Það er hlutverk okkar sem vinna með ungu fólki að efla þau á allan hátt og hafa fjölbreyttar leiðir til að gefa nemendum tækifæri til að sýna sína styrkleika m.a. í gegnum nemendafélagið.
Sem skólameistara finnst mér það forréttindi að eiga góð samskipti og samvinnu við nemendafélagið því það er ekki sjálfgefið. Ég vil þakka viðburðastjóra skólans, Pétri Guðjónssyni, og fráfarandi stjórn Þórdunu fyrir vel unnin störf og hlakka til næsta skólaárs með nýrri stjórn sem þegar er komin á fullt að undirbúa fjörið fyrir næsta ár.“
Erlent samstarf
Sigríður Huld sagði erlent samstarf hafa verið með miklum blóma í vetur og það væri orðið fastur liður í skólastarfinu. Nemendur njóti góðs af þessum erlendu samstarfsverkefnum, m.a. hafi sjúkraliðanemar farið til Danmerkur og Finnlands í starfsþjálfun. Þá hafi fimm nemendur af málmsmíðabraut farið ásamt kennara til Noregs þar sem nemendurnir voru í nær tvær vikur við nám í verknámsskóla í Þrándheimi. Þá hafi tveir kokkanemar verið í starfsþjálfun á veitingahúsum í Álaborg í þrjár vikur og fyrir nokkrum dögum hafi nemendur af viðskipta- og hagfræðibraut komið heim frá Litháen þar sem þeir hafi tekið þátt í Nord-plus verkefni. „Þetta er reyndar langt því frá að vera tæmandi listi yfir það sem við erum að gera i erlendu samstarfi. Þessi tækifæri fyrir nemendur eru dýrmæt og efla sjálfstæði og víðsýni þeirra en er ekki síður tækifæri fyrir kennara til starfsþróunar og að fá að kynnast skólastarfi í öðrum löndum.
Þau samstarfsverkefni sem skólinn tekur þátt í eru fjármögnuð í gegnum styrki, annað hvort Nord-Plus styrki eða Evrópusambandsstyrki. Án þessara styrkja gætum við ekki gefið nemendum og kennurum tækifæri til að kynnast námi og störfum í öðrum löndum.
En við erum ekki bara á faraldsfæti. Við fáum erlenda gesti til okkar á hverri önn, bæði nemendur sem koma hingað til Akureyrar í starfsþjálfun og samstarfsfólk úr verkefnum sem skólinn tekur þátt í.“
Fjölbreytileikinn í fyrirrúmi
Skólameistari undirstrikaði í ræðu sinni að áhersla væri lögð á að VMA sé góður skóli fyrir alla nemendur. „Við ætlumst að sjálfsögðu til þess að nemendur leggi sig fram en við horfum ekki á einkunnir, stétt eða stöðu þegar við tökum nemendur inn í skólann – við viljum geta boðið nemendum okkar upp á fjölbreytileika því það er það sem bíður nemenda okkar í framtíðinni. Fjölbreytileikinn er einmitt það sem margir okkar nemenda nefna sem einn af helstu kostum skólans. Sú hæfni sem nemendur okkar fá við að takast á við breytingar og kynnast ólíku fólki sem stefnir í fjölbreyttar áttir er veganesti sem styrkir þá til framtíðar. Ögrunin er hjá þeim skólum sem taka við öllum nemendum óháð námsgetu og það er jafn mikilvægt að koma þeim áfram í framhaldsskólanum sem þurfa lengri tíma til að ná sínum námsmarkmiðum eins og þeim sem gengur alltaf vel að ná þeim.“
Verðlaun og viðurkenningar
Lóa Aðalheiður Kristínardóttir – verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í dönsku. Gefandi: Danska sendiráðið.
Amelía Ósk Hjálmarsdóttir – verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í faggreinum sjúkraliða. Gefandi: Sjúkrahúsið á Akureyri.
Logi Rúnar Jónsson – verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í efnafræði. Gefnadi: Verkmenntaskólinn á Akureyri.
Karitas Fríða Bárðardóttir – verðlaun fyrir bestan árangur í hönnunar- og textílgreinum. Gefandi: Kvennasamband Eyjafjarðar.
Fanný María Brynjarsdóttir og Sandra María Walankiewicz – verðlaun fyrir framúrskarandi árangur ífaggreinum myndlistarkjörsviðs listnámsbrautar. Gefandi: Slippfélagið.
Kristín Anna Svavarsdóttir – verðlaun fyrir bestan árangur í íslensku og ensku. Gefandi: SBA-Norðurleið.
Máney Nótt Ingibjargardóttir – verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í samfélagsgreinum úr Minningarsjóði Alberts Sölva Karlssonar.
Steinar Freyr Hafsteinsson – verðlaun fyrir bestan árangur í húsasmíði. Gefandi: BYGGIÐN - félag byggingamanna.
Sigurlaug Máney Sæmundsen – verðlaun fyrir bestan árangur í húsgagnasmíði. Gefandi: BYGGIÐN - félag byggingamanna.
Helga Hermannsdóttir – verðlaun fyrir árangur í faggreinum kjötiðnar. Gefandi: Kjarnafæði.
Bernharð Anton Jónsson – verðlaun fyrir bestan árangur í faggreinum vélstjórnar. Gefandi: Norðurorka og Naust Marine.
Vignir Logi Ármannsson – verðlaun fyrir bestan árangur í stálsmíðagreinum. Gefandi: Félag málmiðnaðarmanna á Akureyri.
Fanný María Brynjarsdóttir – hvatningarverðlaun VMA. Gefandi: Gámaþjónusta Norðurlands. Verðlaunin eru veitt nemanda sem hefur sýnt miklar framfarir í námi á námstímanum, starfað að félagsmálum nemenda, haft jákvæð áhrif á skólasamfélagið eða verið sér, nemendum og skólanum til sóma á einhvern hátt. „Sú sem hlýtur þessi verðlaun að þessu sinni er nemandi sem byrjaði nám í VMA fyrir löngu síðan og ætlaði þá að læra tækniteiknun. Eitthvað leiddist henni þófið á þessum tíma og hætti eftir eina önn, hún fór svo smátt og smátt að safna sér einingum í gegnum fjarnám skólans og kom að lokum inn í nær fullt nám í dagskóla. Fanný María, stúdent af listnámsbraut, hlýtur verðlaunin fyrir þor og þrauteigju með því að koma aftur til baka í nám. En jafnframt fyrir að stunda námið af eljusemi og áhuga og ljúka því með framúrskarandi árangri. Hún er fyrirmynd fyrir fullorðna námsmenn en ekki síður fyrir yngri samnemendur sína.“
Steinunn María Þorgeirsdóttir og Elvar Kári Bollason – verðlaun fyrir námsárangur á starfsbraut. Báðir hafa þessir nemendur verið einstaklega jákvæðir og auðgað mannlífið í skólanum. Gefandi: Nýherji.
Lóa Aðalheiður Kristínardóttir, Máney Nótt Ingibjargardóttir og Valgerður Þorsteinsdóttir – blómvendir fyrir framlag til félagslífs í VMA.
Amalía Ósk Hjálmarsdóttir og Helga Hermannsdóttir - blómvendir sem viðurkenningarvottur frá skólanum fyrir Íslandsmeistaratitla í sjúkraliðagreinum og kjötiðn á liðnum vetri.
Hér er mynd af öllum verðlauna- og viðurkenningahöfum.
Brautskráning,, tónlistaratriði og ávörp
Afhendingu prófskírteina önnuðst Ómar Kristinsson sviðsstjóri stúdentsprófsbrauta, Harpa Jörundardóttir sviðsstjóri starfsbrautar og brautabrúar og Baldvin Ringsted sviðsstjóri verk- og fjarnáms.
Við brautskráninguna í dag söng Sindri Snær Konráðsson „Ég er kominn heim“ við undirleik Péturs Guðjónssonar á píanó og Hauks Sindra Karlssonar á gítar og Valgerður Þorsteinsdóttir nýstúdent söng lag Megasar, „Tvær stjörnur“ við undirleik Péturs Guðjónssonar á píanó.
Gunnar Pálmi Hannesson flutti ávarp brautskráningarnema og Hilmar Friðjónsson flutti ávarp fyrir hönd þrjátíu ára brautskráningarnema skólans.
Brautskráningarnemar ávarpaðir
Í lok ræðu sinnar ávarpaði Sigríður Huld skólameistari brautskráningarnemana: „Verið stolt af árangri ykkar og horfið björtum augum til framtíðar. Verið trú landi ykkar og uppruna og farið vel með tungumálið okkar. Berið virðingu fyrir fjölskyldu ykkar og vinum og því samferðarfólki sem verður á vegi ykkar í framtíðinni. Fyrst og fremst berið virðingu og umhyggju fyrir ykkur sjálfum og þeim verkefnum sem þið takið að ykkur í framtíðinni. Ég vona að þið eigið góðar minningar frá tíma ykkar hér í VMA. Á þessum svokölluðum framhaldsskólaárum kynnumst við oft og tíðum okkar bestu vinum sem við eigum ævilangt - þótt leiðir skilji á vissan hátt nú við brautskráningu. Viðhaldið vináttunni. Til hamingju!“