Erum komin í sumarfrí!
Nú hafa nemendur okkar á næstu önn fengið svör um skólavist og greiðsluseðla senda á lögheimili sitt. Allir greiðsluseðlar birtast í heimabanka nemenda og hjá eldri forráðamanni nemenda yngri en 18 ára. Við viljum biðja þá sem að hafa hætt við að koma í skólann á næstu önn að láta okkur vita með því að senda tölvupóst á netfangið hrafnhildur@vma.is eða vma@vma.is . Umsóknir fyrir næsta skólár voru í kringum 1250 og hefja 1200 nemendur nám við skólann í ágúst, þar af eru tæplega 220 nýnemar.
Á næsta skólaári er í fyrsta skiptið boðið upp á nám til stúdentsprófs á þremur árum samkvæmt nýrri námsskrá. Við sjáum aukningu í fjölda nemenda á náttúrufræðabraut og á íþrótta- og lýðheilsubraut. Nær allar verklegar brautir eru fullar hjá okkur og biðlisti í grunndeildir í málm- og véltæknigreinum, í rafiðn og í byggingagreinum. Sem fyrr eru flestir nemendur í námi á félagsfræðabraut. Þá þurftum við að hafna 41 umsæjanda og enn er nokkrir nemendur sem bíða þar til í ágúst með að fá svör þar sem þeir nemendur eru á biðlista. Umsóknir um heimavist voru margar og ljóst að það fá ekki allir nemendur okkar pláss á vistinni.
Eins og áður hefur komið fram verða ýmsar breytingar á skipulagi náms við skólann, sérstaklega á stúdentsbrautum. Núverandi nemendur skólans munu sjá ný áfangaheiti í sumum greinum en þekkja önnur áfangaheiti úr gamla kerfinu. Við erum öll að fara inn í tímabil breytinga og vonandi gerum við það saman með opnum huga, starfsfólk, kennarar, stjórnendur og nemendur.
Skrifstofa skólans lokaði á hádegi í dag sólardaginn 26. júní - opnum aftur þriðjudaginn 4. ágúst. Upplýsingar um töfluafhendingar og upphaf annarinnar verða settar á heimasíðu skólans. Innritun í fjarnám er í gegnum heimasíðuna og hefst innritun í byrjun ágúst.
Njótum sumarsins!