Fengu spjaldtölvur að gjöf
Fulltrúar Rafmenntar og SART – Samtaka rafverktaka heimsóttu VMA í þessari viku og færðu nýnemum í rafiðngreinum að gjöf spjaldtölvur til þess að auðvelda nám sitt. Að gjöfinni standa Rafiðnaðarsambandið og Samtök rafverktaka en þessi félög eiga og reka Rafmennt – fræðslusetur rafiðnaðarins.
Þetta er fjórða árið sem Rafiðnaðarsambandið og SART gefa öllum nýnemum í rafiðngreinum á landinu spjaldtölvur. Hugsunin að baki gjöfinni er sú að auðvelda nemendum notkun Rafbókar á netinu, þar sem er að finna mikið af kennslu- og fræðsluefni í rafiðngreinum.
Rösklega þrjátíu nemendur hófu nám í grunndeild rafiðna í VMA í haust og fengu þeir allir spjaldtölvur að gjöf. Spjaldtölvurnar afhentu Jónas Ragnarsson fyrir hönd Samtaka rafverktaka, Þór Pálsson framkvæmdastjóri Rafmenntar og Bára Laxdal Halldórsdóttir verkefnastjóri Rafbókar hjá Rafmennt.
„Þetta er fjórða árið sem nemendur fá spjaldtölvur að gjöf og þegar allir nýnemar í rafiðngreinum á landinu hafa fengið spjaldtölvur í ár má ætla að við höfum gefið um tvö þúsund og fimmhundruð spjaldtölvur. Andvirði spjaldtölvanna þrjú síðustu ár er um hundrað milljónir króna,“ segir Þór Pálsson. Hann segir að með því að gefa nemendum spjaldtölvur vilji gefendur opna nemendum leiðir til þess að nálgast kennsluefni á Rafbókinni. „Okkur fannst Rafbókin ekki vera nægilega mikið notuð, margir nemendur höfðu ekki aðgang að tækjabúnaði til þess að nálgast þar kennsluefni. Úr þessu vildum við bæta. Við höfum lagt það fyrir kennara í rafiðngreinum að allt námsefni sem þeir vilja nota verði sett inn á vefinn, ef þeir vilja ekki nota það efni sem við höfum nú þegar sett inn á Rafbókina. Við höfum keypt námsefni af kennurum til þess að setja það inn á vefinn og það er merkt viðkomandi áfanga. Þarna eru líka ýmsar handbækur sem nauðsynlegt er að hafa aðgang að. Við viljum með þessum miðlæga gagnagrunni leggja okkar lóð á vogarskálarnar í að draga úr pappírsnotkun og auðvelda öllum aðgengi að uppýsingum. Rafbókina höfum við verið að byggja upp undanfarin ár. Upphaflega kom hún frá Danmörku, Fræðsluskrifstofa rafiðnaðarins gerði á sínum tíma samning við Dani um að fá að nota efni frá þeim og það var síðan þýtt á íslensku. Reynslan af Rafbókinni er mjög góð, kennarar eru ánægðir með hana og sömuleiðis nemendur. Langmest af efni Rafbókarinnar er vistað í pdf-skjölum og því er auðvelt að hlaða efni Rafbókarinnar niður og nemendur þurfa því ekki að vera nettengdir til þess að geta unnið með það,“ segir Þór. Hann segir að spjaldtölvurnar séu fjármagnaðar af Menntasjóði rafiðnaðarins en í hann greiða allir félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins. „Það hefur verið mikil eining um að leggja umtalsvert fjármagn til þessa verkefnis og ég er sammála því að það skiptir miklu máli að nemendur hafi allir jafnan aðgang að þessari efnisveitu með því að eignast slíka spjaldtölvu,“ segir Þór.
„Þetta nám er og hefur verið vinsælt og ég tel engan vafa leika á því að í framtíðinni verður vöxtur í þessari grein og aukin þörf á tæknimenntuðu fólki, ekki síst fólki í rafiðngreinum,“ segir Þór Pálsson.