Fjórir nemendur skipaðir í stjórn Þórdunu
Þessa dagana ættu samkvæmt öllu eðlilegu að fara fram stjórnarskipti í nemendafélaginu Þórdunu í VMA með kosningum og hefðbundnum hætti. Samgöngubann og óhefðbundið skólastarf hefur hins vegar komið í veg fyrir það. Ýmsar hugmyndir voru reifaðar til lausnar á málinu, m.a. að efna til rafrænnar kosningar meðal nemenda, en niðurstaðan var sú að Þórduna og skólastjórnendur sammæltust um að fjórir stjórnarmenn hafa verið skipaðir í stjórn Þórdunu fyrir næsta skólaár. Anna Kristjana Helgadóttir verður formaður Þórdunu, Aldís Lilja Sigurðardóttir verður varaformaður og meðstjórnendur hafa verið skipaðir Sveinn Brimar Jónsson og Skírnir Már Skaftason. Öll þessi fjögur voru í fráfarandi stjórn Þórdunu og þekkja því vel til félagslífsins í VMA, Anna Kristjana hefur raunar verið tvö síðustu ár í stjórninni.
Í haust, á fyrstu dögum haustannar, er síðan ætlunin að óska eftir fleiri stjórnarmönnum úr nemendahópnum í stjórn Þórdunu.
Anna Kristjana Helgadóttir, nýr formaður Þórdunu, segir að þrátt fyrir þessa óvenjulegu tíma sé engan bilbug að finna á nemendum varðandi félagslífið næsta vetur. Undanfarna vikur hafi fólk átt vikulega fjarfundi og farið yfir hin ýmsu mál er lúta að félagslífinu og þegar sé búið að leggja ákveðnar línur fyrir næsta vetur. „Þetta er ákveðin áskorun en ég er bara spennt. Þetta hefur gengið vel hingað til og ég sé ekki fram á að það muni breytast. Við höfum verið á vikulegum fjarfundum til að undirbúa allt fyrir næsta vetur sem hægt er að undirbúa,“ segir Anna Kristjana.
Pétur Guðjónsson viðburðastjóri VMA tekur undir það að nú þegar hafi verið unnið að ýmsu fyrir næsta vetur og nefnir hann í því sambandi leiklistina, nú þegar sú búið að leggja ákveðnar línur með það leikrit sem verði fært upp næsta vetur. Frekari fréttir af því bíða haustsins.
Auk stjórnar Þórdunu hafa eftirtaldar fjórar stúlkur tekið að sér að leiða starf Leikfélags VMA næsta vetur: Embla Björk Jónsdóttir og María Björk Jónsdóttir skipta með sér formennskunni og Elín Gunnarsdóttir og Katrín Helga Ómarsdóttir verða meðstjórnendur.