Fara í efni

Öflugir nemendur frá VMA á aðalþingi SÍF

Fjórir nemendur frá VMA fóru með glæsibrag á aðalþing Sambands íslenskra framhaldsskólanema (SÍF), sem haldið var laugardaginn 21. september sl. í Háskólanum í Reykjavík. Fulltrúar VMA voru þau Guðmar Gísli Þrastarson, Atli Freyr Ólafsson, Birkir Orri Jónsson og Gyða Rún Alfreðsdóttir, og stóðu þau sig öll með prýði.

Samband íslenskra framhaldsskólanema er hagsmunasamtök allra framhaldsskólanema. Nemendafélög allra framhaldsskóla landsins eiga aðild að SÍF.

Á þinginu var lögð sérstök áhersla á Söngkeppni framhaldsskólanna, sem er mikilvægt atriði í starfsemi SÍF. Markmið með þinginu var að endurvekja keppnina og halda áfram á þeirri vegferð. Marinó Geir Lilliendahl, umsjónarmaður keppninnar, mætti á þingið til að ræða framtíðarsýn og hugmyndir tengdar keppninni. Mikið var rætt um landsbyggðarskólana og hversu erfitt það hefur verið að fá nemendur suður á Söngkeppnina vegna aukins kostnaðar fyrir nemendur sem koma lengra að.

Þórduna tilnefndi Atla Frey Ólafsson í undirbúningshóp fyrir Söngkeppni framhaldsskólanna, þar sem hann mun taka virkan þátt í að skipuleggja undankeppnina í skólanum okkar.

Undankeppni fyrir Söngkeppni framhaldsskólanna mun fara fram þann 14. nóvember í VMA þegar Þórduna heldur Sturtuhausinn. Þar geta nemendur skólans tekið þátt og sigurvegarinn mun fara fyrir hönd VMA á Söngkeppni framhaldsskólanna í vor.