Fjölsóttur fyrirlestur Þorsteins og Sólborgar
Það var þétt setinn bekkurinn í M-01 í VMA í dag þegar Þorsteinn V. Einarsson og Sólborg Guðbrandsdóttir fluttu fyrirlestur um eitraða karlmennsku, stafrænt kynferðisofbeldi o.fl.
Nemendafélagið Þórduna hafði veg og vanda af því að fá Þorstein og Sólborgu norður til þess að halda fyrirlesturinn.
Þorsteinn V. Einarsson, kennari og kynjafræðingur, heldur úti vefsíðunni Karlmennskan þar sem hann fjallar m.a. um jákvæða karlmennsku og jafnrétti. Fávita kallar Sólborg samfélagsverkefni sitt gegn stafrænu og annars konar kynferðisofbeldi. Verkefnið hóf Sólborg á Instragram árið 2016 og það hefur heldur betur vaxið á þeim sex árum sem hafa liðið síðan. Auk umfjöllunar á netinu hefur Sólborg sent frá sér bækur um málefnið.
Bæði hafa Þorsteinn og Sólborg haldið mikinn fjölda fyrirlestra um þessi mál og náð sérstaklega vel eyrum ungs fólks.
Þessar myndir tók Hilmar Friðjónsson á fyrirlestri Þorsteins og Sólborgar í VMA í dag.