Frumkvöðlar selja fuglahús og poppkorn
Einn af áföngunum í náminu á viðskipta- og hagfræðibraut í VMA er frumkvöðlafræði þar sem víða er komið við og nemendur fá innsýn í fjölmargt er lýtur að framleiðslu og markaðssetningu vöru. Fyrst þarf að fá viðskiptahugmyndina sjálfa, stofna um hana fyrirtæki, setja upp viðskipta- og markaðsáætlanir, framleiða vöruna og selja hana síðan.
Núna á vorönn hefur Íris Ragnarsdóttir kennt frumkvöðlafræði í VMA og var nemendum skipt í tvo hópa sem þróuðu og markaðssettu sínar vörur – annars vegar popp með tælenskum kryddum (Spice Corn) og hins vegar fuglahús (Lars) úr endurunnu efni sem fyrirtæki á Akureyri létu nemendum í té. Fab Lab Akureyri lagði nemendum lið við hönnun og samsetningu húsanna.
Punkturinn yfir i-ið í þessu ferli var síðan þátttaka nemendahópanna í JA Iceland - árlegri vörumessu ungra frumkvöðla í Smáralind í Kópavogi um liðna helgi þar sem þeir kynntu og seldu framleiðsluvörur sínar. Hér er umfjöllun Mbl.is um vörumessuna í Smáralind og eins og sjá má kemur VMA-poppkornið m.a. við sögu.
Um sex hundruð nemendur frá fjórtán framhaldsskólum kynntu um 120 fyrirtæki sín á vörumessunni í Smáralind. Íris kennari tók þessar myndir í Smáralind.
En þátttakan í vörumessunni var ekki alveg síðasti liðurinn í þessu frumkvöðlaverkefni því að á morgun, föstudag, þurfa öll fyrirtækin sem tóku þátt í vörumessunni að hafa skilað greinargerðum um framleiðsluvörur sínar. Þegar skýrslurnar liggja fyrir mun dómnefnd geta lagt mat á verkefnin og ákveðið hvaða vörur/fyrirtæki fá viðurkenningar.
Íris kennari segir að nemendur séu alltaf á einu máli um að áfanginn í frumkvöðlafræði sé einn af mikilsverðustu áföngum sem þeir taki á sínum námsferli, enda taki hann til svo ótal margra þátta sem þeir sem séu í framleiðslu, markaðssetningu og sölu vara þurfi að tileinka sér.