Gengið að kjörborði í skuggakosningum
Í gær var efnt til svokallaðra skuggakosninga í VMA, líkt og öðrum framhaldsskólum landsins. Kosningarnar voru í framhaldi af framboðsfundinum sem var efnt til í VMA í hádeginu sl. miðvikudag með fulltrúum allra þeirra tíu framboða sem bjóða fram í Norðausturkjördæmi.
Á vefsíðunni Ég kýs eru allar upplýsingar um skuggakosningarnar og tilganginn með þeim en í stórum dráttum er hann sá að efla lýðræðisvitund hjá ungu fólki og hvetja það til þess að nýta rétt sinn til þess að ganga að kjörborði í kosningum, hvort sem það eru alþingis-, sveitarstjórna eða forsetakosningum.
Settur var upp kjörstaður í Gryfjunni þar sem öllum reglum var fylgt um framkvæmd leynilegra kosninga. Nemendur fengu kjörseðla með nöfnum allra framboða, fóru í kjörklefann og skiluðu seðlunum síðan í kjörkassa.
Atkvæðum nemenda í öllum framhaldsskólum landsins, í það minnsta þeirra sem taka þátt í skuggakosningunum, verður safnað saman og þau talin í einu lagi. Úrslit kosninganna verða kunngjörð í kosningaútsendingu Rúv að kvöldi kjördags þegar öllum kjörstöðum í alþingiskosningunum hefur verið lokað.
Um framkvæmd framboðsfundarins í fyrradag og skuggakosninganna í gær sáu fulltrúar nemendafélagsins Þórdunu og nemar í áföngum í lýðræðis- og mannréttindamálum hjá Valgerði Dögg Jónsdóttur og Þorsteini Kruger. Full ástæða er til þess að þakka öllum þeim sem unnu afar góða vinnu fyrir þeirra framlag.
Á vefsíðunni Ég kýs er m.a. svokallaður Kosningaviti þar sem kjósendur fá aðstoð við að komast að því hvaða framboð stendur hjarta þeirra næst.