Glíma við íhluti og rafeindarásir
Íhlutir, viðnám, rafeindarásir, spenna, viðnám. Nokkur af þeim hugtökum sem nemendur í verktækni grunnnáms – tækjasmíði 1 þurfa að tileinka sér og hafa á hreinu.
Nemendur á annarri önn grunndeildar rafiðna eru önnum kafnir við að lóða og púsla saman rafeindarásum. Allt þarf þetta að vera rétt saman sett til þess að virknin sé rétt. Auðvelt er að misstíga sig og snúa einhverjum íhlut öfugt – en hér er nákvæmnin eitt af mikilvægustu boðorðunum.
Hér læra nemendur að vinna með íhlutamæla og eitt af verkefnum annarinnar er að útbúa lóðstöð. Kassinn utan um stöðina kemur tilsniðinn frá Slippnum en það er síðan nemendanna að pússa hann til og koma viðkomandi íhlutum á sinn stað, eftir kúnstarinnar reglum.
Björn kennari segir að þessi smíðaáfangi sé afar mikilvægur grunnur fyrir bæði verðandi rafvirkja og rafeindavirkja og ofan á þennan grunn verði áfram byggt á næstu önnum. Áfanginn er allur verklegur og því sitja nemendur við og vinna stíft – njóta leiðsagnar Björns og lesa sér til og lesa út úr myndum og teikningum.