Gryfjan að breytast í leikhús fyrir Grís
Það fer ekki á milli mála að Gryfjan er smám saman að breytast í leikhús. Ekki að ástæðulausu því eftir um þrjár vikur mun þar allt iða af lífi og fjöri þegar rokksöngleikurinn Grís (Grease) verður settur upp af Leikfélagi VMA í leikstjórn Péturs Guðjónssonar.
Þegar litið var inn í Gryfjuna sl. miðvikudagskvöld var unnið á mörgum vígstöðvum. Á sviðinu var leikhópurinn að æfa þær senur þar sem hið talaða mál ræður för en dans- og söngatriðin voru hvíld að þessu sinni. Eva Reykjalín hefur þjálfað krakkana af krafti í dansinum enda eru mörg atriði í verkinu þar sem danssporin taka völdin. Hljómsveitin sem spilar undir í sýningunni hefur æft stíft að undanförnu, nemendur úr byggingadeildinni taka til hendinn við að stækka sviðið í Gryfjunni og smíða leikmynd, nemendur á listnáms- og hönnunarbraut koma einnig við sögu í leikmyndagerðinni, nemendur í hársnyrtiiðninni koma að hárgreiðslunni í sýningunni, hljóð og lýsing er í höndum tæknihópsins sem á að stórum hluta á tengingu við rafvirkjun og rafveindavirkjun - og svona mætti áfram telja. Uppsetningin er verkefni stórs hóps nemenda og utan um verkefnið heldur fagfólk með leikstjórann Pétur Guðjónsson og aðstoðarleikstjórann Jokku í broddi fylkingar.
Það er í ótal mörg horn að líta þegar svo viðamikil sýning er sett upp en það er mikill hugur í leikhópnum og víst er að næstu þrjár vikur - fram að frumsýningu á verkinu 19. febrúar nk. - verða þétt setnar hjá öllum þeim sem að sýningunni koma. Það eru ákveðnir töfrar þegar allt smellur saman á síðustu vikum æfingatímans. Það mun gerast nú sem endranær.
Æfingatíminn hefur verið heldur betur öðruvísi en gengur og gerist vegna Covid 19. Vegna fjölda- og fjarlægðartakmarkana hefur þurft að skipta leikhópnum vikum saman - og framan af voru æfingar / samlestrar á netinu. Eftir að reglur um sviðslistir voru rýmkaðar í byrjun þessa árs hefur verið unnt að æfa markvissar en áður og Pétur leikstjóri og allir sem að sýningunni koma krossa fingur í þeirri von að Covid-veiran haldi sér áfram til hlés hér á landi og því unnt verði að halda tímaáætlun um frumsýningu á Grís 19. febrúar nk.