Halldór Birgir í öðru sæti í ritlistakeppni Ungskálda
Halldór Birgir Eydal, nemandi í VMA og formaður nemendafélagsins Þórdunu, varð í öðru sæti í ritlistakeppni Ungskálda. Verk hans nefnist Ég vil ekki kaupa ný jakkaföt. Úrslit í keppninni voru kunngjörð á Amtsbókasafninu í gær, fimmtudag.
Í 1. sæti í keppninni varð Þorsteinn Jakob Klemenzson með verkið Vá hvað ég hata þriðjudaga og því þriðja Þorbjörg Þóroddsdóttir fyrir verk sitt, Mandarínur.
Ungskáld er verkefni sem hefur það að markmiði að efla ritlist og skapandi hugsun hjá fólki á aldrinum 16 til 25 ára á Norðurlandi eystra. Að þessu sinni bárust 52 verk frá 29 þátttakendum í keppnina.
Í dómnefndinni voru Finnur Friðriksson, dósent við Háskólann á Akureyri, Hólmfríður Andersdóttir, fyrrverandi bókavörður á Amtsbókasafninu, og Þórður Sævar Jónsson, ljóðskáld og þýðandi, sem jafnframt var formaður dómnefndar.
Að Ungskáldum standa Amtsbókasafnið á Akureyri, Akureyrarstofa, Ungmennahúsið í Rósenborg, VMA og MA. Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.