Halldór Logi Íslandsmeistari í brasilísku jiu jitsu
Halldór Logi Valsson, tvítugur nemandi á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA, glímdi til Íslandsmeistaratitils í +100,5 kg flokki í brasilísku jiu jitsu (BJJ) um síðustu helgi. Hann hóf að æfa þessa íþrótt af krafti árið 2012 og er þegar kominn í fremstu röð, eins og Íslandsmeistaratitillinn staðfestir. Það vakti athygli fréttamanns RÚV á Íslandsmeistaramótinu að Halldór Logi nýtti pásur milli glíma til þess að lesa Egilssögu fyrir íslenskupróf í VMA, sem hann fór í sl. mánudag. Hér má sjá umfjöllun RÚV - sjá 6.20 mín.
Halldór Logi segist hafa byrjað að „fikta“ við að æfa brasilísku jiu jitsu árið 2011, þegar hann æfði fótbolta með KA. Hann hafði æft fótbolta upp alla yngri flokka og var á þessum tíma kominn upp í 2. flokk. Í gamla júdósalnum í KA-heimilinu, fékk hann nasaþefinn af íþróttinni, sem lið í styrktarþjálfun með fótboltanum. Hann varð strax heillaður af íþróttinni en engu að síður hélt hann áfram í fótboltanum. Það var síðan árið 2012 sem Halldór Logi varð fyrir þrálátum nárameiðslum í fótboltanum og neyddist til þess að láta staðar numið í boltanum, í bili að minnsta kosti. Þá rifjaði hann upp kynni sín við brasilísku jiu jitsu og síðan hefur engin önnur íþrótt komist að. „Ég fór að stunda stífar æfingar hjá Fenri í Sunnuhlíðinni og ég fann að þetta átti vel við mig. Ég fór á sínum tíma í Menntaskólann og lauk þar hálfu öðru ári en ákvað þá að gefa íþróttinni meiri tíma, tímabundið að minnsta kosti, og fór að vinna til þess að ná mér í pening. Hann nýtti ég síðan til þess í janúar á þessu ári að fara í fjögurra mánaða æfinga- og keppnisferðalag til útlanda. Ég byrjaði á að fara til Portúgals, síðan var ég í um þrjá mánuði í Bandaríkjunum og endaði ferðina í El Salvador. Kom síðan heim í apríl og hóf nám hér í VMA á íþrótta- og lýðheilsubraut sl. haust.“
Fyrr á árinu reif Halldór Logi liðþófa í hné og fór í aðgerð vegna þess í júlí sl. sumar. Hann segist nú vera að ná sér óðum og sé nú að æfa og beita sér af meiri krafti en áður. Markmiðin eru skýr; hann stefnir að því að ná eins langt í þessari íþrótt og mögulegt er og einnig hefur hann mikinn hug á því að þjálfa í framtíðinni. Hann segir þjálfunina eiga vel við sig og því hafi hann ákveðið að fara á íþrótta- og lýðheilsubrautina í VMA.
Halldór Logi er varaformaður BBJ Sambands Íslands, sem er samband þeirra félaga sem æfa Brasilískt Jiu Jitsu (BJJ) og/eða uppgjafarglímu (submission grappling) á Íslandi.Hann segir íþróttina ekki vera innan ÍSÍ en vonir standi til þess að breyting verði á því áður en langt um líður. Sömuleiðis hafi íþróttin ekki verið keppnisgrein á Ólympíuleikum en til standi að hún verði sýningargrein þar.
Sem fyrr segir stefnir Halldór Logi á þjálfun í framtíðinni og nú þegar er hann byrjaður að þjálfa hjá Fenri á Akureyri. Íþróttin er í mikilli sókn á Akureyri eins og raunar um allt land. Hann segir að eflaust hafi árangur Gunnars Nelson haft þar sitt að segja en grunnur hans er meðal annars úr brasilísku jiu jitsu. Halldór Logi lætur þess getið að í janúar verði hann með byrjendanámskeið í brasilísku jiu jitsu í húsakynnum Fenris að Austursíðu 2 – gamla Sjafnarhúsinu.