Heimur sýndarveruleikans
Darri Arnarson brautskráðist stúdent af náttúrufræðibraut VMA árið 2011 og var um tíma formaður nemendafélagsins Þórdunu. Hann hafði þá þegar mikinn áhuga á tölvuleikjum og það varð úr að hann fetaði þá braut í námi. Í vetur hefur hann kennt nemendum í VMA forritun og tölvuleikjagerð.
Darri rifjar upp að hann hafi fyrst heillast af tölvuleikjaheiminum fyrir um hálfum öðrum áratug og sogast meira og meira inn í þann heim og þær mörgu hliðar sem hann býður upp á. Að loknu námi í VMA vann hann í eitt ár hjá Stefnu-hugbúnaðarhúsi á Akureyri en síðan lá leiðin í Margmiðlunarskólann í Reykjavík þar sem hann lærði forritun og tölvuleikjagerð. Hann hafði lítillega kynnst þessum heimi í valáföngum í 9. og 10. bekk Oddeyrarskóla og í VMA var hann í áfanga hjá Hilmari Friðjónssyni þar sem var farið yfir ýmislegt sem tengist margmiðlun, t.d. ljósmyndun, kvikmyndagerð o.fl.
Árið 2013 hóf Darri störf hjá fyrirtækinu Skema – til hliðar við námið í Margmiðlunarskólanum - og kenndi grunnskólanemum forritun og tölvuleikjagerð. Til að byrja með var fyrirtækið á vegum Háskólans í Reykjavík en síðan varð það sjálfstætt en er nú aftur komið undir hatt HR. Darri segist fljótt hafa komist að raun um að kennslan ætti vel við hann. Árið 2014 lauk hann tveggja ára diplómanámi frá Margmiðlunarskólanum. Haustönnina eftir að Darri lauk náminu bauðst honum að kenna þar í afleysingum og í framhaldinu ákvað hann að sækja nám í skóla í Noregi og var þar í eitt ár til þess að ljúka BA-námi í tölvuleikjagerð og upplifunarhönnun vorið 2016. Um haustið fór hann aftur að kenna í afleysingum í Margmiðlunarskólanum. Leiðin lá síðan til Hollands í meistaranám en Darra hugnaðist ekki fyrirkomulag námsins og hætti því. „Ástæðan fyrir því að ég fór til Hollands var sú að ég hafði í nokkur ár, frá því ég byrjaði að kenna, velt fyrir mér ýmsu varðandi sýndarveruleika og langaði að þróa þann áhuga áfram. Sýndarveruleiki hafði löngu áður komið fram á sjónarsviðið en ekki náð flugi vegna þess að tæknin var ekki nægileg þróuð. En þegar ég kenndi í Margmiðlunarskólanum árið 2016 settum við upp þann búnað sem þurfti en enn þann dag í dag er gallinn sá hversu dýr þessi búnaður er.“
En hvað er sýndarveruleiki? Tölvuleikir eru drifkrafturinn, segir Darri. Sýndarveruleiki byggir á ekki ósvipaðri tækni og tölvuleikirnir. „Sýndarveruleikinn getur nýst í mörgu, t.d. í kennslu og þjálfun fyrir starfsfólk. Sýndarveruleikinn gefur fólki tækifæri á upplifun sem það gæti annars ekki átt kost á. Hann býður upp á að fólk sé á öðrum stað og með öðru fólki. Ef ég er til dæmis með sýndarveruleikabúnað á Akureyri og annar er með samskonar búnað í Ástralíu opnast sú leið að deila rými og upplifa það sama. Það sem hefur hamlað þróuninni í þessari tækni er kostnaðurinn við búnaðinn en ég hygg að á þessu ári og því næsta verði tekin ákveðin skref í að lækka kostnað við búnaðinn sem aftur auðveldar fólki að tengjast inn í þennan heim. Það er áhugavert að Facebook hefur tekið ákveðin skref inn í heim sýndarveruleikans sem gefur sterklega til kynna að það sé keppikefli Facebook að koma sem flestum sem allra fyrst á þennan stað og það mun ekki gerast nema að kostnaður lækki verulega - og það hefur nú þegar gerst. Æ fleiri fyrirtæki eru að hasla sér völl á þessu sviði sem gerir það að verkum að samkeppnn eykst og kostnaður lækkar. Í tölvuheiminum telja margir að þetta sé næsta skrefið í tölvuheiminum – á ensku „next computer platform“. Það kemur því ekki á óvart að stórfyrirtæki eins og Facebook, Microsoft, Google og Apple vilji gera sig gildandi á þessu sviði,“ segir Darri.
Í kennslu sinni í vetur hefur Darri m.a. kynnt nemendum heim sýndarveruleikans og gefið þeim kost á því að prófa eigin búnað. „Ég er á því að besta leiðin til þess að kenna forritun sé leikjagerð. Ég hef verið að kenna forritun og leikjagerð samhliða og tvinnað sýndarveruleikann inn í námið. Það hefur gefið góða raun,“ segir Darri Arnarson.