Í húsasmíði eftir sjö ára skólahlé
Þegar Akureyringurinn Jakob Hafsteinsson lauk stúdentsprófi af íþróttabraut VMA fyrir sjö árum var hann í miklum vafa hvað hann vildi gera í framtíðinni. Sú hugmynd kom upp að fara áfram í háskóla, en bara ekki strax. Jakob fór út á vinnumarkaðinn og tíminn leið, hann var ekkert nær niðurstöðu um hvað hann vildi læra. Jakob vann í fjögur ár í ýmsum störfum hjá Norðlenska á Akureyri og síðan í þrjú ár hjá Útgerðarfélagi Akureyringa – þar til sl. haust er hann ákvað að taka skrefið og setjast aftur á skólabekk, í grunnnámið í byggingadeild VMA og eftir áramótin heldur hann áfram í húsasmíði.
Jakob segir að það hafi vissulega verið dálítið skrítið að byrja aftur í skóla eftir sjö ára hlé og hann verið smá tíma að venjast því. Einnig hafi það í byrjun verið svolítið sérstakt að vera einn af elstu nemendunum í hópi nýnema í byggingadeildinni en hann er 27 ára gamall.
Um ástæður þess að hafa að endingu valið húsasmíðina segir Jakob að hann hafi ekki reynslu af byggingarvinnu en þó fundið að hann hefði ánægju af því að grípa í smíðar. Þess vegna hafi hann langað til þess að prófa þetta nám og sjái ekki eftir því, það sé áhugavert og gefandi og á þessum fyrstu mánuðum hafi hann lært heilmargt um m.a. notkun tækja og tóla og vinnuverndarmál. Öryggismálin séu mikilvægur þáttur í náminu og aldrei sé of mikið rætt um þau. Jakob segist hafa einbeitt sér að náminu á þessari fyrstu önn, enda sé hann í fimm áföngum og því mikið að gera. En þegar lengra verður komið í náminu hafi hann áhuga á að vinna í smíðunum með náminu. Þar sem hann hafi lokið stúdentsprófi hafi hann þegar lokið ýmsum bóklegum áföngum sem þurfi að taka í húsasmíðinni til viðbótar við verklegu áfangana.
Fótboltinn er aðal áhugamál Jakobs, hann hefur sparkað bolta frá barnæsku. Upp yngri flokkana og í meistaraflokk var Jakob í KA, spilaði síðan með KF og hefur undanfarin ár verið liðsmaður Magna á Grenivík.