Í vélstjórn til þess að búa sig undir háskólanám í vélaverkfræði
Þóra Kolbrún Jóhannsdóttir var ákveðin í því þegar hún lauk grunnskólanámi á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit að hún vildi læra vélaverkfræði. Eftir að hafa skoðað ýmsa möguleika var niðurstaðan sú að fara í grunndeild málmiðnaðar í VMA og síðan áfram í vélstjórn. Sú ákvörðun var rétt, segir Þóra Kolbrún þegar hún horfir til baka. Hún er núna á sinni fimmtu önn í skólanum, þeirri þriðju í vélstjórn eftir að hafa lokið fyrsta árinu í grunndeild málmiðnaðar.
Jafnframt vélstjórnarnáminu tekur Þóra Kolbrún stúdentspróf. Hún horfir til þess að taka BS-nám í vélaverkfræði í Reykjavík en fara síðan til útlanda í meistaranám.
„Reynsla mín af þessu námi er sú að þetta er mjög góður grunnur. Ég er búin að læra ótrúlega margt um vélar, hönnun véla og vélfræði sem ég tel að muni hjálpa mér í vélaverkfræðinni. Þegar ég var í grunnskóla bjóst ég ekki við því að fara í vélstjórn en svo kynnti ég mér betur hvað kostir væru í stöðunni og niðurstaðan var að fara í þetta nám. Ég sé ekki eftir því. Vélstjórnin sameinar bóklegt nám í raungreinum, sem ég hef gaman af að glíma við, t.d. stærðfræði, eðlisfræði og efnafræði, og verklegt nám, sem var mér framandi, t.d. málmsmíði og málmsuða. Ég kom í VMA beint úr níunda bekk – sleppti sem sagt tíunda bekk – og því var ég ekki orðin fimmtán ára gömul þegar ég byrjaði í grunndeild málmiðnaðar. Þetta var því áskorun og verklegi hlutinn í grunndeildinni var eitthvað alveg nýtt fyrir mig en þetta gekk engu að síður mjög vel og mér fannst þetta mjög skemmtilegt. Vélstjórnarnámið er viðamikið og það þarf virkilega að skipuleggja sig vel til þess að komast yfir heimanám í öllum áföngum. Það gefst lítill tími í annað en lærdóm,“ segir Þóra Kolbrún.
Eins og áður hefur verið greint frá hér á heimasíðunni fengu fjórir nemendur í VMA, þar á meðal Þóra Kolbrún, styrk úr hvatningarsjóði Kviku í haust og nam hann einni milljón króna. Þóra segir að það hafi komið sér skemmtilega á óvart að hljóta styrkinn og hún sé afar þakklát fyrir að hafa fengið hann, enda hafi margir sótt um. Styrkinn segist Þóra hafa sett strax sett inn á bankabók og ætli að nýta hann þegar hún fari í háskólanám í vélaverkfræði.