Kennarar og nemendur frá Danmörku og Hollandi í VMA
Þessa viku hafa verið í heimsókn í VMA hópar nemenda og kennara frá Morgen College í Harderwijk í Hollandi og Randers Social og sunhedsskole í Danmörku. Saman hafa þessir þrír skólar unnið að verkefninu Ready for the World á síðustu mánuðum en um er að ræða Erasmus+ Evrópuverkefni.
Frá Randers komu 12 nemendur og 2 kennarar en frá Hollandi 14 nemendur og 2 kennarar. Í verkefninu taka að þessu sinni þátt 15 VMA-nemar og kennararnir Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir, Valgerður Dögg Jónsdóttir og Bryndís Indíana Stefánsdóttir.
Þessi heimsókn gestanna frá Randers og Harderwijk er lokaáfanginn í þessu verkefni, sem fór í fullan gang á síðasta ári. Undirbúningsfundur í verkefninu var fyrir Covid-faraldurinn en því var svo slegið á frest vegna faraldursins. VMA-nemendur fóru í heimsókn til Randers í nóvember 2021 og síðan var haldið til Harderwijk í mars 2022.
Hollendingarnir og Danirnir komu til landsins sl. sunnudag en verkefnið hófst sl. mánudag. Dagskráin í vikunni hefur verið fjölbreytt. Meðal annars voru kynningar hópanna sl. mánudag, farið var í hvalaskoðun frá Hauganesi, kynning var á starfsemi Súlna – björgunarsveitar Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Akureyri og í gær var farið í dásamlegu veðri í náttúruskoðunarferð í Mývatnssveit. Síðan lá leiðin til Húsavíkur þar sem farið var í Sjóböðin og deginum lauk með máltíð á veitingastaðnum Sölku á Húsavík. Í dag lýkur verkefninu í VMA og hinir erlendu gestir fara síðdegis frá Akureyri suður yfir heiðar og fljúga til Hollands og Danmerkur á morgun.
Hér eru myndir sem Hrafnhildur Sigurgeirsdóttir hefur tekið í vikunni.