Fara í efni

Kennslan er skemmtilegt og gefandi starf

Slegið á létta strengi í síðsumarblíðunni. Erna Hildur Gunnarsdóttir og Hálfdán Örnólfsson eru þau e…
Slegið á létta strengi í síðsumarblíðunni. Erna Hildur Gunnarsdóttir og Hálfdán Örnólfsson eru þau einu sem hafa unnið í VMA í 40 ár - allan þann tíma sem skólinn hefur starfað.

Tveir núverandi starfsmenn VMA, kennararnir Hálfdán Örnólfsson og Erna Hildur Gunnarsdóttir, hafa starfað við skólann frá því að hann hóf starfsemi fyrir 40 árum. Þegar horft er um öxl eru þau hæstánægð að hafa valið kennsluna sem sitt ævistarf. Erna hefur á þessum fjörutíu árum kennt ensku en Hálfdán samfélags- hagfræði- og tölvugreinar og stærðfræði. Erna er fædd 1959 og var því 25 ára gömul þegar hún hóf að kenna við skólann árið 1984. Hálfdán er tveimur árum eldri, fæddur 1957.

Hálfdán: Mér finnst nemendur í raun hafa furðu lítið breyst á þessum fjörutíu árum. Þeir eru í dag hið besta fólk og þannig var það líka hér áður fyrr. Ef eitthvað er eru nemendur prúðari í dag í tímum en ég óttast að ein skýringin á því séu farsímarnir. Og athygli nemenda sem í eina tíð fólst í því að tala saman og vera í samskiptum hefur svolítið færst yfir í símtækin og nemendur eru meira inn í sig, ef svo má segja.
Erna: Nemendur eru í dag jafn skemmtilegir og þeir voru fyrir fjórum áratugum enda er þessi aldur, frá sextán til tvítugs, svo skemmtilegur. Á þessum aldri er unga fólkið svo frjótt og fyndið. Það sem mér finnst hins vegar hafa breyst mjög greinilega er viðhorf nemenda til heimanáms. Ég er farin að skipuleggja kennsluna meira á þann veg að hlutirnir gerist í kennslustundunum, frekar en að nemendur vinni heima. En auðvitað vinna líka margir nemendur heimaverkefni og fjölmargir eru framúrskarandi í námi sínu og ástundun. Á síðustu önn var ég til dæmis að kenna bókmenntaáfanga og þar voru nokkrir algjörlega frábærir nemendur og ég mátti hafa mig alla við. Flóra nemenda hefur alla tíð verið mjög breið í þessum skóla en hún er ívið breiðari í dag en fyrir fjörutíu árum. Núna fara nánast allir í framhaldsskóla að loknum grunnskóla, hvar sem þeir eru staddir námslega, en þannig var það ekki hér á árum áður, fjöldi krakka hætti í námi eftir grunnskóla.
Hálfdán: Það er gaman að hugsa til baka til þess tíma þegar skólastarf hófst hér fyrir fjörutíu árum. Verkefnið sem við vorum að takast á við var spennandi, nýr skóli og ég var að stíga mín fyrstu skref sem kennari. En þetta var vissulega líka oft erfitt því dagarnir voru langir. Stundataflan var viðamikil og það þótti ekki tiltökumál að kenna yfir þrjátíu tíma á viku, það þótti bara nokkuð eðlilegt!
Erna: Það rifjast upp fyrir mér mér að fyrsta veturinn kenndi ég þrjátíu og sex tíma á viku og það bókstaflega sá á mér eftir veturinn! Þetta var alveg hrikalegt álag.
Hálfdán: Á þessum fyrstu árum vorum við dálítið mikið á ferðinni milli skólahússins hér á Eyrarlandsholti, Íþróttahallarinnar, Gaggans og gamla Iðnskólans. Þannig að minningin er sú að þetta var mikil keyrsla og hörkuvinna og við áttum ekkert efni í sarpnum. Við urðum því að vinna töluvert af kennsluefninu frá grunni.
Erna: Mér finnst mjög gott að vinna með þessu unga fólki. Það heldur manni svolítið niðri á jörðinni og í raunveruleikanum. Að vinna með því hjálpar manni að fylgjast með samfélagsbreytingum. Ég geri mér ekki grein fyrir hversu mörgum nemendum ég hef kennt á þessum fjörutíu árum en væntanlega eru þeir nokkur þúsund. Ég man auðvitað ekki nöfn allra nemendanna sem ég hef kennt en ég er nokkuð glögg á andlitin.
Hálfdán: Ég tek undir með Ernu að þetta er skemmtilegt og gefandi starf, ekki síst þegar maður finnur þakklæti og áhuga og sér árangur. Kennslan og samskiptin við nemendur er það skemmtilegasta. Um tíma vann ég við stjórnun hérna í skólanum og það fannst mér yfirleitt bara hundleiðinlegt og var mjög feginn þegar ég ákvað að hætta þeim kafla og fara aftur í kennsluna.
Erna: Það hefur auðvitað lengi verið þessi umræddi MA-VMA rígur en satt best að segja hef ég aldrei hlustað á þetta, ég hreinlega nenni því ekki. Við vitum vel hvað við erum að gera hér í skólanum og göngum kinnroðalaust til okkar verka.
Hálfdán: Á fyrstu árunum var þessi svokallaðir rígur nýttur á jákvæðan hátt og efnt til keppnisdaga milli skólanna, MA-VMA daga, þar sem m.a. var keppt í hinum ýmsu íþróttagreinum. Þetta var mjög vel heppnað og skemmtilegt.
Erna: Mér hefur fundist að stjórnir nemendafélaganna í báðum skólum séu síður en svo fastar í þessum meinta ríg enda hafa þær í gegnum tíðina unnið ljómandi vel saman.
Hálfdán: Bæði VMA og MA eru fleytifullir af nemendum og það er ákveðin verkaskipting á milli skólanna. Ég held að við þurfum tvo framhaldsskóla hér á Akureyri sem hafi á ýmsan hátt ólíkar áherslur.
Erna: Ég hef lengi verið á þeirri skoðun að það þyrfti að stórauka samvinnu skólanna og ég tel að það mætti auðveldlega koma henni við, fyrst og fremst er þetta skipulagsatriði. Fyrsta árið sem ég kenndi skiptum við Jón Már Héðinsson, sem þá var íslenskukennari en síðar skólameistari MA, á þann veg að ég kenndi ensku í MA og hann kenndi íslensku hér. Við vorum mjög sammála um hversu gott það var fyrir okkur að fá þannig innsýn í starf beggja skólanna. Þetta finnst mér eitt af því sem mætti gjarnan skoða og almennt að auka samstarf skólanna í stað hugmyndarinnar um sameiningu þeirra sem mér fannst svolítið andvana fædd.
Hálfdán: Mér finnst afmælisbarnið bera sig nokkuð vel á afmælisári. Þessi skóli er á margan hátt sérstakur með alla þessa miklu fjölbreytni og hér hafa verið spennandi hlutir í gangi í gegnum tíðina. Ég held að almennt sé horft til þessa skóla af áhuga og virðingu. Í eðli sínu er skóli fólkið sem í honum er og umgjörð um starfsemina, þ.e.a.s. kennsluna. Þar á eftir kemur húsnæðið. Auðvitað má alltaf nefna eitthvað sem hefði mátt gera öðruvísi en á heildina litið held ég að megi með sanni segja að VMA sé gríðarlega öflug stofnun og samfélaginu afar mikilvæg og skólinn býr yfir miklum möguleikum til framtíðar.
Erna: Því er ég algjörlega sammála. Hér er ótrúlega mikil fjölbreytni í námsvali og ólíkar námsbrautir undir sama þaki og því er sannarlega ekkert auðvelt að láta þetta allt saman ganga upp. Ég er þess fullviss að það eru mjög bjartir tímar framundan í VMA.

----

Hálfdán segir að kennsluferillinn sé farinn að styttast í annan endann, hann hafi gefið það út að þetta skólaár verði hans síðasta við kennslu í VMA. „Mér finnst líklegt að ég muni standa við það,“ segir Hálfdán.
„Ég er reyndar ekki við kennslu af ákveðnum ástæðum á þessari önn en kem aftur inn á vorönn en þá í skertu starfshlutfalli. En spurningin er hversu lengi ég kenni, í það minnsta get ég sagt að ég mun ekki kenna lengur en til 67 ára aldurs, kannski hætti ég fyrr,“ segir Erna.

Afmælishátíð í Gryfjunni í VMA í dag

Í dag er hátíð í bæ í VMA. Þess verður minnst í dag með formlegum hætti að 40 ár eru liðin frá því að skólinn var settur á stofn og starfseminni var ýtt úr vör. Opið hús verður í skólanum kl. 15-17 af þessu tilefni og eru allir boðnir að koma í skólann og taka þátt í afmælishátíðinni og kynna sér í leiðinni starfsemina í skólanum.

Afmælishófið hefst í Gryfjunni í VMA kl. 15. Ávörp flytja Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, Ragnhildur Bolladóttir teymisstjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, Guðjón Hreinn Hauksson formaður Félags framhaldsskólakennara og stúdent frá VMA 1991, Jasmín Arnarsdóttir nemandi og kynningarstjóri í stjórn Þórdunu nemendafélags VMA og Hálfdán Örnólfsson kennari ávarpar samkomuna fyrir hönd starfsfólks skólans.

Tónlistarflutningur verður í höndum Hafdísar Ingu Kristjánsdóttur sem útskrifaðist frá VMA í maí 2023 og var fulltrúi VMA í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2021. 

Opið verður inn á ýmsar brautir skólans þar sem fólk getur kynnt sér skólastarfið. Boðið verður upp á veitingar og auðvitað verður afmæliskaka í boði en hún kemur frá Brauðgerðarhúsi Akureyrar.

Boðið verður upp á kvikmyndaveislu með myndum sem gerðar voru fyrir nokkrum árum af kvikmyndaklúbbi skólans, Filmunni. Hægt verður að skoða gömul skólablöð og myndasýningar.

Á morgun, föstudaginn 30. ágúst kl. 16-18, verður síðan móttaka í Gryfjunni fyrir núverandi og fyrrverandi starfsfólk skólans.