Leikfélag VMA sýnir Lísu í Undralandi
Leikfélag VMA mun í vetur setja upp fjölskyldusýninguna Lísu í Undralandi. Þetta tilkynnti stjórnarfólk í Leikfélagi VMA í Gryfjunni í gær.
Sýningin byggir á sögu Lewis Carroll um ferðalag stúlkunnar Lísu til Undralands, sem er sígilt bókmenntaverk og ein ástsælasta barna- og unglingasaga fyrr og síðar. Við sögu koma margar skemmtilegar persónur, s.s. Óði hattarinn, Hjartadrottningin, Hvíta kanínan og Kötturinn skælbrosandi.
Síðari hluta september verður auglýst eftir fólki til þess að koma í prufur fyrir sýninguna og eru þær áætlaðar fyrri hluta október. Í kjölfarið hefjast æfingar á verkinu. Verkferillinn við sýninguna verður í stórum dráttum sá sami og við uppfærslu Grís í fyrra, þ.e. að stefnt er að því að æfa upp nokkur atriði í sýningunni fyrir áramót til kynningar í desember en síðan verður aðal æfingatíminn í janúar og fram að áætlaðri frumsýningu í febrúar 2022. Embla Björk Hróadóttir segir að allt ráðist þetta þó af gildandi samkomutakmörkunum og sóttvarnareglum á hverjum tíma.
Um ástæðu þess að ákveðið hafi verið að setja upp Lísu í Undralandi í vetur segir Embla Björk að Leikfélag VMA hafi lengi haft augastað á þessu verki, það hafi verið eitt þeirra sem kom til greina í fyrra þegar Grís varð fyrir valinu. „Við ætlum að útfæra sýninguna þannig að hún höfði til allra aldurshópa. Þetta er söngleikur en það eru ýmsar útgáfur til af honum. Við eigum endanlega eftir að ákveða hvaða útgáfa verður fyrir valinu,“ segir Embla Björk.
Sindri Swan hefur verið ráðinn leikstjóri sýningarinnar, en hann hefur bæði leikið og leikstýrt. Sindri útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá KADA í London árið 2014. Þar bjó hann í ellefu ár og lék bæði í kvikmyndum og á leiksviði. Undanfarin ár hefur hann í auknum mæli lagt áherslu á leikstjórn.
Lísa í Undralandi er ekki eina leiklistarverkefnið sem verður unnið að í vetur. Embla Björk upplýsir að hún hafi í hyggju að setja upp núna á haustönn, í samstarfi við Leikfélag VMA, verk sem hún hefur skrifað handritið að. Hugmyndin varð til í tengslum við vitundarvakningu um ofbeldi í samböndum. „Ætlunin var að setja þetta upp í fyrra en Covid kom í veg fyrir það en við stefnum á að sýna þetta leikverk, sem gæti verið um tuttugu mínútur, fyrir nýnema í lífsleikni hér í VMA og mögulega verður það sýnt víðar. Að mínu mati er mjög mikilvægt að tala opinskátt um þessi mál og þess vegna ákvað ég að skrifa þetta handrit. Ef verkið verður til þess að bjarga þó ekki væri nema einum frá því að lenda í ofbeldisfullu sambandi, þá er markmiðinu náð,“ segir Embla Björk og hefur væntingar til þess að unnt verði að sýna leikverkið, sem reyndar hefur ekki enn fengið nafn, núna á seinnihluta haustannar.