Leiklist í þriðjudagsfyrirlestri
Í dag, þriðjudaginn 31. janúar kl. 17:00-17:40, verða listahjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir með þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri undir yfirskriftinni Samstarf samlímdra hjóna. Þar munu þau fjalla um samstarf sitt í leiklistinni.
Elfar Logi og Marsibil reka eina atvinnuleikhús Vestfjarða, Kómedíuleikhúsið, og elstu leiklistarhátíð á Íslandi, Act Alone, sem haldin er á Suðureyri. Jafnframt standa þau fyrir Sumarleikhúsi Kómedíuleikhússins hvert sumar í Haukadal í Dýrafirði. Elfar hefur samið leikrit fyrir leikhúsið auk þess að leika en Marsibil hefur hannað leikmyndir og leikstýrt. Eitt af þekktari verkum sem Elfar Logi hefur samið og leikið er um Gísla Oktavíus Gíslason í Uppsölum.
Elfar Logi nam leiklist í Kaupmannahöfn, en Marsibil er sjálfmenntuð og hefur sótt ýmis námskeið í gegnum tíðina m.a. við Myndlistaskólann á Akureyri. Þau hafa dvalið í listamannaíbúð Gilfélagsins núna í janúar og opnaði Marsibil sýninguna Kufungar og skeljaskvísur fyrr í þessum mánuði.
Þriðjudagsfyrirlestrarnir eru samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, VMA, Gilfélagsins, MA og Myndlistarfélagsins á Akureyri. Aðgangur er ókeypis.