LIME-nemar í Samkomuhúsinu
Núna á vorönn kennir Helga Björg Jónasardóttir áfangann LIME – listir og menning líðandi stundar þar sem sjónum er meðal annars beint að hugmyndum og hugtökum í menningarumræðunni, gildi lista frá ýmsum sjónarhornum – í t.d. menningar- og efnahagslegu tilliti, menningarstofnunum og menningarviðburðum.
Í áfanganum eru vinnustofur og menningarstofnanir sóttar heim og skyggnst á bak við tjöldin við skipulagningu og framkvæmd menningarviðburða. Meðal annars hafa nemendur fengið tækifæri til þess að kynnast leiklistarstarfi MAk í Samkomuhúsinu við uppsetningu á söngleiknum Chicago, sem hefur sannarlega slegið í gegn.
Nemendum í áfanganum gafst kostur á að sjá síðustu æfingu á uppfærslunni á Chicago í janúar sl. og í vikunni fóru þeir aftur með Helgu kennara í heimsókn í Samkomuhúsið og fengu frábærar móttökur Mörtu Nordal leikhússtjóra og leikstjóra uppfærslunnar á Chicago.
Marta sýndi nemendum völundarhús Samkomuhússins og bakhlið leikhússins, ef svo má að orði komast. Hún sagði nemendum á lifandi og skemmtilegan hátt frá fjölbreyttu starfi í leikhúsi og hvernig leiksýning verði í stórum dráttum til. Þá sagði Marta nemendum frá þeirri fjölbreyttu flóru náms í sviðslistum, búningahönnun og fleiru sem er í boði, bæði hér á landi og erlendis, og bauðst til þess að ráðleggja áhugasömum nemendum í þeim efnum.
Helga Björg kennari og nemendurnir í LIME-áfanganum vilja koma á framfæri sérstökum þökkum til Mörtu Nordal fyrir frábærar móttökur og fræðslu.
Meðfylgjandi mynd tók Helga af nemendum sínum með Mörtu Nordal leikhússtjóra á sviði Samkomuhússins. Allt um kring er leikmynd söngleiksins Chicago, sem hefur gengið fyrir fullu húsi síðan í janúar. Það er ekki seinna vænna að tryggja sér miða á þessa fjörmiklu og fáguðu uppfærslu, 35. og síðasta sýning verður í Samkomuhúsinu 29. apríl nk.