Fara í efni

List er vítt hugtak

Kristjana Bella Kristinsdóttir.
Kristjana Bella Kristinsdóttir.

Kristjana Bella Kristinsdóttir stundar nám á öðru ári á listnáms- og hönnunarbraut VMA. Hún segist njóta þess að skapa, hvort sem það er í myndlist, leiklist eða dansi.

Kristjana fæddist í Kópavogi og tók fyrstu þrjá bekki grunnskóla syðra en fluttist þá til Akureyrar og var í Oddeyrarskóla og Lundarskóla. Síðan lá leiðin í VMA. Það kom ekkert annað til greina en að fara á listnáms- og hönnunarbraut. „Ég elska listsköpun og hún skiptir okkur svo miklu máli. Kvikmyndir eru list, sömuleiðis ljósmyndir og myndlist. List er vítt hugtak. Á bak við hana er mikil hugsun og að vera listamaður er miklu meira en bara að mála. Sjálf hef ég lengi æft dans, líklega frá sjö ára aldri, í Steps dancecenter hér á Akureyri. Ég elska dans. Í honum fæ ég útrás, hann er listsköpun en um leið íþrótt og góð hreyfing og honum tengist auðvitað tónlist. Dansinn sameinar svo margt. Og ég hef líka prófað leiklistina, t.d. lék ég Mikka ref í uppfærslu Leikfélags VMA sl. vetur á Dýrunum í Hálsaskógi. Val mitt á listnáms- og hönnunarbraut hér í VMA var því augljós kostur enda horfi ég til þess að vera í listsköpun í framtíðinni, hvort sem það verður í dansi, leiklist eða myndlist. Kannski má segja að ég hafi þetta svolítið í genunum því foreldrar mínir hafa báðir tengst listsköpun á einn eða annan hátt,“ segir Kristjana Bella.

Í síðustu viku var hér á heimasíðunni fjallað um innsetningar nemenda á listnáms- og hönnunarbraut. Eitt verkanna unnu Kristjana Bella og Neó Týr og beindi það sjónum að náttúrunni og umhverfismálum almennt. Kristjana segir að umhverfis- og loftlagsmál séu ofarlega í huga ungs fólks og því sé ekki að neita að breytingar í veðurfari með tilheyrandi hörmungum út um allan heim valdi mörgum kvíða. „Ég reyni að fylgjast með pólitíkinni en geri mér grein fyrir að ég veit ekki jafn mikið um hana og fullorðið fólk. En engu að síður vil ég vita hvað er að gerast í kringum mig og reyna að leggja mitt af mörkum til þess að hlutirnir breytist. Því miður get ég ekki kosið í kosningunum núna í lok nóvember, enda bara sextán ára – verð sautján í desember. Mér finnst miður að geta ekki kosið enda tel ég mig nægilega þroskaða og vita nógu mikið til þess að kjósa. En vissulega eru sumir jafnaldar mínir sem vita lítið um pólitík en ég reyni að tala við þá um pólitík og þeir hlusta. Mér finnst almennt að ungt fólk vilji vita meira um þessa hluti til þess að heimurinn verði betri.“

Kristjana segist ekki vera farin að leggja nákvæmar línur um hvaða hún vill læra í framhaldinu af stúdentsprófi frá VMA en stefnan sé þó sett á Listaháskólann. Hvaða námsbraut verði fyrir valinu komi síðar í ljós.