Listrænt sjónarhorn á matseld og bakstur
Eins og vera ber í samkomubanni hafa nemendur og kennarar leitað ýmissa nýrra lausna í kennslu og verkefnavinnu. Í áfanganum Listir og menning, sem Björg Eiríksdóttir kennir, kynna nemendur sér menningarumhverfi samtímans og rannsaka það út frá merkingu, menningarsögu og faglegri opinberri umfjöllun. Áfanginn byggir á virkri þátttöku nemandans og frumkvæði þar sem hann metur menningarviðburði líðandi stundar á eigin forsendum í samanburði við faglega umfjöllun í fjölmiðlum. Það sem vekur athygli nemandans og tengist viðfangsefnum áfangans er til opinnar og rannsakandi umræðu í nemendahópnum þar sem virkni og umburðarlyndi er leiðarstefið.
Rétt fyrir samkomubann höfðu nemendur í áfanganum skipt sér í 4-5 manna hópa og skyldi hver hópur skipuleggja hverja kennslustund út frá framangreindri áfangalýsingu. Þegar samkomubannið skall á 16. mars var það viðfangsefni Bjargar kennara og nemenda að halda áfram að vinna að viðfangsefninu út frá breyttum forsendum.
Einn hópurinn ákvað t.d. að hafa baksturs-/matargerðarkeppni út frá ákveðnum hugtökum (kvikmyndir, þættir, litir, listasaga og lönd) og var hugmyndin að smakka í tíma. Þess í stað var afraksturinn settur í sameiginlegt skjal og hann dæmdur út frá útliti.
Annar hópur hafði ákveðið að búa til stórt sameiginlegt myndverk, í raunheimum, annað hvort á gólfinu inni í stofu eða jafnvel úti. Þessi hugmynd varð að engu í samkomubanni en þess í stað unnu nemendur sameiginlegt myndverk í forritinu aggie.io þar sem hver nemandi gerði sitt „layer“. Unnið var út frá þjóðfélagsástandinu í dag - þar sem Covid 19 er allsráðandi og allt um kring - og ber hið sameiginlega verk nemenda heitið Nútíminn á tímum kórónaveirunnar.