Margþætt þjónusta á bókasafninu
Það er í mörg horn að líta fyrir nýnema á ári hverju, margt þarf að læra og tileinka sér í nýjum skóla og á nýju skólastigi. Það tekur til dæmis drjúgan tíma að læra hreinlega að rata um byggingar VMA enda má líkja þeim við völundarhús
Eitt af því sem nýnemar kynna sér á fyrstu önn sinni í skólanum er bókasafnið og hvaða fjölbreyttu þjónustu starfsmennirnir þar, Hanna Þórey Guðmundsdóttir forstöðumaður bókasafnsins og Dagný Hulda Valbergsdóttir, veita.
Allir nýnemar í skólanum fá safnafræðslu og er hún hluti af námi í lífsleikni. Lífsleiknikennararnir koma með námshópa sína á bókasafnið og þær Hanna Þórey og Dagný Hulda kynna nemendum safnkostinn og hvaða þjónustu þær veita nemendum. Safnafræðslan hefst í þessari viku og verður eitthvað fram á önnina.
Ekki aðeins er bóka- og tímaritakostur safnsins mikill og fjölbreyttur heldur er þar einnig hægt að fá lánað á skólatíma Chrome tölvur, hleðslutæki, reiknivélar, heyrnartól, sýndarveruleikagleraugu, myndavélar, þrífætur, tölvumýs og margt fleira af tækjum og tólum.
Fín lesaðstaða er á bókasafninu og þar er svokallað Ritver þar sem Hanna Þórey og Dagný Hulda leggja nemendum lið eftir mætti við heimildaleit, að skrá heimildir og setja upp ritgerðir.
Upplýsingaöflun nemenda hefur í auknum mæli færst yfir á netið en Hanna Þórey minnir á að fjölmargt sé þar ekki að finna og því sé nú sem ætíð áður afar mikilvægt fyrir nemendur að kunna á því skil að afla heimilda í ritgerðir og verkefni úr bókum.
Nýtt og betra bókasafnskerfi hefur verið tekið í notkun á þessu ári um allt land og var kerfið tekið í notkun í VMA núna í byrjun skólaárs. Hanna Þórey segir að nýja kerfið sé fyrst og fremst mun öflugra og svari kalli nútímans betur en gamla kerfið og það taki einnig betur mið af persónuverndarlögum. Vert er að benda á að samræmdur leitarvefur bókasafna, Leitir.is, er eftir sem áður virkur.