Metfjöldi nýnema í VMA
Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá í dag, föstudaginn 22. ágúst. Nýnemar – þ.e. þeir nemendur sem koma beint úr grunnskóla – við VMA núna á haustönn eru samtals 249 og hafa aldrei í þrjátíu ára sögu skólans verið fleiri. Í það heila eru um 1230 nemendur skráðir í skólann á haustönn.
Eftirvæntingin leyndi sér ekki í andlitum nemenda sem sóttu stundaskrár í skólann í gær. Hilmar Friðjónsson var með myndavélina á lofti og tók þessar myndir.
Núna á haustönn eru um 1230 nemendur skráðir í dagskóla í VMA og til viðbótar eru þrjátíu umsóknir á biðlista, en ekki er unnt að svara þeim fyrr en fyrir liggur hvort allir þeir sem hafa fengið skólavist skila sér og hvernig gengur að koma þeim fyrir. Þetta skýrist núna á fyrstu dögum skólaársins.
Nýnemar sem hefja nám í VMA núna á haustönn – þ.e. þeir sem koma beint úr grunnskóla – eru alls 249 og hafa aldrei verið fleiri. Til viðbótar koma 122 nýir nemendur í skólann – hluti þeirra hefur áður verið í öðrum skólum. Þá er þess að geta að 139 fyrrum nemendur VMA koma nú aftur í skólann. Að öllu samanlögðu verða því ríflega 500 nemendur í skólanum núna á haustönn sem ekki voru þar á vorönn 2014.
Nokkrar námsbrautir við skólann eru fullbókaðar. Það á t.d. við um grunndeild rafiðna, grunndeild málm- og véltæknigreina, byggingadeild og listnám. Einnig er mikil aðsókn á almenna braut og hefðbundin aðsókn er á stúdentsbrautir.
Athyglisvert er að aðsókn að verknámsbrautum í VMA hefur verið að aukast undanfarin ár. Einkum hefur verið mikil aðsókn í málmiðnaðargreinar, vélstjórn og rafvirkjun og nú virðast byggingagreinar einnig vera að rétta aftur úr kútnum eftir nokkra lægð í kjölfar efnahagshrunsins.