Grunnskólanemar á námskynningum í VMA
Á hverjum vetri koma nemendur úr efstu bekkjum grunnskóla í heimsókn í VMA til þess að kynna sér námsframboð í skólanum. Þessar námskynningar féllu þó niður á sl. vetri vegna covid-faraldursins en núna á haustönn hefur þráðurinn verið tekinn upp aftur. Reyndar hefur skipulag heimsókn nemenda úr grunnskólum á Akureyri riðlast síðustu vikurnar vegna covid-smita en í gær hófust kynningarnar aftur þgar tæplega sextíu tíundubekkingar úr Brekkuskóla á Akureyri komu í heimsókn í VMA.
Fyrst voru námsráðgjafar skólans, Helga Júlíusdóttir og Svava Hrönn Magnúsdóttir, með kynningu á námsbrautum skólans og einnig kynntu fulltrúar Þórdunu - nemendafélags skólans nemendum Brekkuskóla félagslífið í VMA. Síðan var hópnum skipt í nokkra minni hópa, sem fóru í heimsóknir inn á námsbrautirnar og fengu að sjá með eigin augum hið daglega starf í skólanum.
Svava Hrönn námsráðgjafi segir að vegna þess að námskynningarnar féllu niður í fyrra vegna covid verði gestkvæmt í VMA í vetur. Núna á haustönn verði nemendum í 10. bekk grunnskólanna á Akureyri boðið að koma í skólann og eftir áramót verði 9. bekkingum grunnskólanna á Akureyri boðið að koma og einnig verði nemendur úr fjölmörgum grunnskólum utan Akureyrar boðnir velkomnir.