NÁSS er kynning og vegvísir
Einn af þeim áföngum sem nemendur af þremur brautum skólans – brautabrú, starfsbraut og sérnámsbraut – taka á sinni fyrstu önn í skólanum er NÁSS – Náms- og starfsfræðsla. Þessi áfangi hefur verið í boði í mörg undanfarin ár fyrir nýnema en eins og í svo mörgu öðru varð breyting á í kóvidfaraldrinum. En nú hefur þráðurinn verið tekinn upp á nýjan leik og NÁSS-ið fer vel af stað.
Í þessum áfanga sækja nemendur kennslustundir á ólíkum námsbrautum skólans og fá þannig smörþefinn af fjölbreyttum möguleikum í námsvali sem skólinn býður upp á. Þess eru mörg dæmi að nemendur sem eru óráðnir í námsvali hafi í þessum áfanga fundið sinn farveg í námi.
Núna á haustönn eru fjórir námshópar í NÁSS og þeir eru tvisvar í viku í verklegum kennslustundum í grunndeild rafgreina, grunndeild málmiðngreina, á listnámsbraut, í hársnyrtiiðn og í grunndeild matvæla- og ferðagreina. Hver hópur er í átta skipti í tvöföldu tímapari í grunndeild rafgreina, grunndeild málmiðngreina og á listnámsbraut og í fjögur skipti í tvöföldu tímapari í hársnyrtiiðn og í eldamennskunni í grunndeild matvæla- og ferðagreina.
Hugmyndin með þessum áfanga er, sem fyrr segir, að kynna nemendum ólíkar verknámsbrautir, sem í mörgum tilfellum hefur gefið mjög góða raun og auðveldað þeim val á námsleiðum í framhaldinu.