Fara í efni

Nautsterkur Íslandsmethafi í hnébeygju

Íslandsmethafinn í hnébeygju, Kamil Krzysztof Potrykud, nemandi á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA.
Íslandsmethafinn í hnébeygju, Kamil Krzysztof Potrykud, nemandi á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA.

Hann er töluvert sterkari en við hin! Kamil Krzysztof Potrykud, nemandi á öðru ári á íþrótta og lýðheilsubraut VMA, setti Íslandsmet í hnébeygju í sínum þyngdar- og aldursflokki, á Íslandsmótinu í kraftlyftingum í Reykjavík fyrr í þessum mánuði.

Kamil er frá Þórshöfn á Langanesi en hefur búið á Heimavist VMA og MA þá tvo vetur sem hann hefur stundað nám á íþrótta- og lýðheilsubraut VMA. Hann er sautján ára gamall og keppir því í ungmennaflokki. Þyngdarflokkurinn sem hann keppir í er 105 kg og Íslandsmetslyftan var 196,5 kg.

Kamil hefur æft með lyftingadeild KA í vetur en í sumar verður hann í heimahögunum á Þórshöfn og verður í ýmsum störfum fyrir sveitarfélagið Langanesbyggð. Auk þess tekur hann á lóðum í líkamsræktinni þar og fylgir æfingaáætlun þjálfara sinna hjá KA.

Lyftingar hefur Kamil æft af krafti í 2-3 ár og því er árangur hans eftirtektarverður. Hann rifjar upp að hann hafi ákveðið að prófa lyftingarnar á sínum tíma vegna þess að hann hafi vitað að hann væri náttúrulega sterkur og því hann viljað láta á þetta reyna. Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Íslandsmetið segir Kamil að sé mikil hvatning og hann láti ekki þar við sitja. Takmarkið sé að bæta sig enn frekar í hnébeygjunni og ná einnig góðum árangri í réttstöðulyftu og bekkpressu – og þar með samanlögðu – hann sé nálægt Íslandsmetinu í þessum greinum. Kamil segir að það hafi komið sér skemmtilega á óvart að hafa náð Íslandsmetinu í hnébeygju enda hafi hann verið veikur dagana fyrir Íslandsmótið og hann hafi fjarri því verið búinn að ná sér á mótsdegi. En engu að síður hafi honum tekist að slá metið og það gefi góð fyrirheit um framhaldið.