Öryggið á oddinn
Það ber fjölmargt að varast í málmiðnaði, eins og öðrum atvinnugreinum. Hætturnar eru handan vð hornið ef ekki er höfð full aðgát og farið eftir öllum reglum varðandi öryggishlífar, hlífðargleraugu, heyrnahlífar o.fl.
Í þessari viku var Sigurður Kristinsson, sölumaður hjá Sindra í Reykjavík, með áhugaverðan fyrirlestur fyrir nemendur á málmiðnbraut VMA þar sem hann beindi sjónum að öryggismálum og hvað geti raunverulega farið úrskeiðis ef öryggiskröfum og -leiðbeiningum er ekki fylgt í hvívetna. Sýndi Sigurður, máli sínu til stuðnings, ófagrar myndir af fólki sem hefur orðið fyrir alvarlegum slysum, m.a. við notkun skurðar- og slípiskífa.
Sigurður þekkir vel til þessara mála enda hefur hann lengi átt samstarf við Vinnueftirlitið um skráningu slíkra vinnuslysa. Slysin gera ekki boð á undan sér en Sigurður lagði áherslu á að unnt væri að koma í veg fyrir flest þeirra ef fylgt væri ítrustu öryggisreglum og -kröfum.
Sigurður nefndi einnig að stöðugt væri unnið að þróun umhverfisvænni efna sem menguðu minna, minni hætta væri á neistaflugi og hávaðinn við notkun þeirra væri minni.
Að fyrirlestrinum loknum færði Sigurður fyrir hönd Sindra Herði Óskarssyni, brautarstjóra málmiðnbrautar VMA, tvo Dewalt slípirokka. Fyrir þessa góðu gjöf Sindra vill skólinn þakka af heilum hug. Sem fyrr er gott samstarf við atvinnulífið og stuðningur þess við skólann ómetanlegur.